1 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig,
hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,
2þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
3Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það
og alla vegu mína gjörþekkir þú.
4Eigi er það orð á tungu minni
að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
5Þú umlykur mig á bak og brjóst
og hönd þína hefur þú lagt á mig.
6Sú þekking er undursamlegri en svo að ég fái skilið,
of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
7Hvert get ég farið frá anda þínum,
hvert flúið frá augliti þínu?
8Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,
þótt ég gerði undirheima að hvílu minni, þá ertu einnig þar.
9Þótt ég lyfti mér á vængjum morgunroðans
og settist við hið ysta haf,
10einnig þar mundi hönd þín leiða mig
og hægri hönd þín halda mér.
11Og þótt ég segði: „Myrkrið hylji mig
og ljósið í kringum mig verði nótt,“
12þá mundi myrkrið eigi verða þér of myrkt
og nóttin lýsa eins og dagur,
myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.
13Þú hefur myndað nýru mín,
ofið mig í móðurlífi.
14Ég lofa þig fyrir það að ég er undursamlega skapaður,
undursamleg eru verk þín,
það veit ég næsta vel.
15Bein mín voru þér eigi hulin
þegar ég var gerður í leyndum,
myndaður í djúpum jarðar.
16Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni,
ævidagar mínir voru ákveðnir
og allir skráðir í bók þína
áður en nokkur þeirra var til orðinn.
17Guð, hversu torskildar eru mér hugsanir þínar,
hversu stórfenglegur er fjöldi þeirra.
18Ef ég vildi telja þær væru þær fleiri en sandkornin,
lyki ég við að telja þær vaknaði ég og ég væri enn hjá þér.
19Ó, að þú, Guð, vildir fella níðingana.
Víkið frá mér, morðingjar.
20Þeir tala um þig með illt í huga
og leggja nafn þitt við hégóma.
21Ætti ég ekki að hata hatursmenn þína, Drottinn,
og hafa andstyggð á þeim sem rísa gegn þér?
22 Ég hata þá fullu hatri,
þeir eru orðnir óvinir mínir.
23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt,
rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar
24 og sjá þú hvort ég geng á glötunarvegi [
og leið mig hinn eilífa veg.