1 Hann sagði við mig: „Mannssonur, et það sem að þér er rétt. Et þessa bók og farðu síðan og ávarpaðu Ísraelsmenn.“ 2 Þá opnaði ég munninn og hann fékk mér bókina að eta 3 og sagði við mig: „Mannssonur, et bók þessa og láttu hana fylla magann.“ Þá át ég hana og hún var sæt sem hunang í munni mér.
4 Síðan sagði hann við mig: „Mannssonur, farðu nú til Ísraelsmanna og flyttu þeim orð mín 5 því að þú ert ekki sendur til fólks sem talar framandi eða óskiljanlegt tungumál, heldur til Ísraelsmanna, 6 ekki til margra þjóða sem tala framandi tungumál sem þú skilur ekki orð í. Ef ég hefði sent þig til þeirra hefðu þær hlustað á þig. 7 En Ísraelsmenn vilja ekki hlusta á þig af því að þeir vilja ekki hlusta á mig. Þar sem allir Ísraelsmenn hafa hart enni og forhert hjarta 8 herði ég nú andlit þitt eins og andlit þeirra og enni þitt eins og enni þeirra. 9 Ég hef gert enni þitt hart sem demant, harðara en kvars. Þú skalt hvorki óttast þá né skelfast þó að þeir séu þverúðugt fólk.“

Spámaðurinn sendur til hinna útlægu

10 Síðan sagði hann við mig: „Mannssonur, hlýddu með athygli á öll þau orð sem ég tala til þín og festu þau í huga þér. 11 Haltu af stað, farðu til útlaganna, samlanda þinna, ávarpaðu þá og segðu: Svo segir Drottinn Guð, hvort sem þeir hlusta eða ekki.“
12 Þá hóf andinn mig upp. Ég heyrði drunur frá miklum jarðskjálfta að baki mér þegar dýrð Drottins hófst upp frá stað sínum,[ 13 þytinn frá vængjum veranna sem snerust, hvin hjólanna við hlið þeirra og drunur frá miklum jarðskjálfta. 14 Andinn hóf mig upp og bar mig með sér. Ég hélt af stað bitur og reiður því að hönd Drottins hvíldi þungt á mér. 15 Ég kom til útlaganna í Tel Abíb, þeirra sem bjuggu við Kebarfljót. Ég sat á meðal þeirra í sjö daga, stjarfur af skelfingu.

Vörður Ísraels

16 Að sjö dögum liðnum kom orð Drottins til mín: 17 „Mannssonur, ég hef gert þig að verði Ísraelsmanna. Þegar þú heyrir orð af munni mínum átt þú að vara þá við í mínu nafni. 18 Þegar ég segi við guðlausan mann: Þú skalt vissulega deyja, og þú hefur hvorki varað hinn guðlausa við né áminnt hann um að láta af guðlausri breytni sinni svo að hann haldi lífi, þá er hann sekur: Hann skal deyja vegna syndar sinnar en blóðs hans mun ég krefjast úr hendi þinni. 19 Ef þú hefur varað hinn guðlausa við, en hann ekki horfið frá guðleysi sínu og guðlausri breytni, skal hann deyja vegna syndar sinnar en þú hefur bjargað lífi þínu. 20 Þegar réttlátur maður snýr frá réttlæti sínu og fremur ranglæti læt ég hann hrasa: Hann skal deyja. Hafir þú ekki varað hann við skal hann deyja vegna syndar sinnar og réttlátra verka, sem hann hefur unnið, skal ekki minnst. En blóðs hans mun ég krefjast úr þinni hendi. 21 Hafir þú hins vegar varað hinn réttláta við því að syndga og hann hefur ekki syndgað mun hann vissulega lifa því að hann lét sér segjast og þú hefur bjargað lífi þínu.“

Þögn spámannsins

22 Hönd Drottins kom yfir mig og hann sagði við mig: 23 „Rístu á fætur og farðu út á sléttuna, þar mun ég tala við þig.“ Ég reis á fætur og fór út á sléttuna. Þar var dýrð Drottins. Hún stóð þar eins og dýrðin sem ég hafði séð við Kebarfljót og ég féll fram á ásjónu mína. 24 Þá kom í mig andi og reisti mig á fætur. Hann ávarpaði mig og sagði: „Farðu heim og lokaðu þig inni í húsi þínu. 25 Þú, mannssonur, verður lagður í bönd og bundinn svo að þú komist ekki út til þeirra. 26 Ég mun láta tunguna loða við góm þér svo að þú missir málið og verðir ófær um að áminna þá, því að þeir eru þvermóðskufullir. 27 En þegar ég tala við þig mun ég ljúka upp munni þínum og þú skalt segja við þá: Svo segir Drottinn Guð. Sá sem heyra vill, hann heyri, en sá sem ekki vill hlusta láti það ógert því að þeir eru þverúðugt fólk.