Sálmur Habakkuks

1 Bæn Habakkuks spámanns. Með Shigionot-lagi.[
2Drottinn, ég hef heyrt orðstír þinn,
mér stafar ógn af afrekum þínum.
Endurtaktu þau nú á þessum árum,
já, opinberaðu þau á þessum árum.
Minnstu miskunnar í reiði þinni.
3Guð kemur frá Teman,
Hinn heilagi frá Paranfjalli. (Sela)
Tign hans þekur himininn
og dýrð hans jörðina alla:
4 Ljómi hans er sem lýsi af nýjum degi
og stafi geislum á alla vegu;
þar er máttur hans fólginn.
5Á undan honum fer farsóttin,
í fótspor hans drepsóttirnar.
6Hann stígur á jörðina svo að hún nötrar,
fyrir augum hans skelfast þjóðirnar,
fjöllin ævafornu molna sundur
og þær sökkva, hæðirnar eilífu,
gönguleið hans forðum.
7Ég sé voðann í tjöldum Kúsans,
tjalddúka Midíans feykjast til.
8Drottinn, ert þú reiður fljótunum?
Beinirðu bræði þinni að fljótunum
eða heift þinni svo að hafinu
að þú akir þar með hesta þína
fyrir sigurvagninum?
9Þú mundar boga þinn
og mettar streng hans örvum,
landið klýfur þú niður í árgljúfur. (Sela)
10Fjöllin nötra er þau líta þig
og steypiregn dynur yfir.
Djúpin hefja upp raust sína
og lyfta höndum sínum hátt.
11Sól og tungl víkja ekki úr stað sínum
er ljómi örva þinna fer hjá
og bjarminn af leiftrandi spjóti þínu.
12Í bræði treður þú jörðina
og kremur þjóðir í heift þinni.
13Þú heldur af stað þjóð þinni til frelsunar
og til fulltingis þínum smurða.
Þú mölvar mæniás hins rangláta
og brýtur hús hans til grunna. (Sela)
14Með kylfu þeirra sjálfra molarðu höfuð leiðtoga þeirra
sem geystust fram til að feykja mér burt,
þeirra sem skemmta sér við að yfirbuga lítilmagnann í laumi.
15Þú treður hafið með hestum þínum
svo að vötnin freyða.
16Þetta hef ég heyrt og það ólgaði innra með mér,
varir mínar skulfu er það barst mér.
Bein mín tærðust
og ég varð valtur á fótum.
Með hugarró mun ég þó bíða neyðardagsins,
dagsins sem kemur yfir þá þjóð sem fer ránshendi gegn oss.
17 Þótt fíkjutréð beri ekki blóm
og vínviðurinn engan ávöxt;
þótt gróði ólífutrésins bregðist
og akrarnir gefi enga fæðu;
þótt sauðféð hverfi burt úr kvíum
og nautgripir úr fjósum,
18skal ég samt gleðjast í Drottni
og fagna yfir Guði hjálpræðis míns.
19Drottinn, Guð minn, er styrkur minn.
Fætur mína gerir hann fráa sem fætur hindarinnar
og leyfir mér að fara um hæðir mínar.
Til söngstjórans. Með strengleik mínum.