Kveðjuræða Jósúa

1 Löngu síðar, þegar Drottinn hafði veitt Ísrael frið fyrir fjandmönnum allt umhverfis og Jósúa var orðinn gamall og hniginn að aldri, 2 kvaddi hann allan Ísrael saman, öldunga hans, höfðingja, dómara og embættismenn og sagði við þá: „Ég er nú orðinn gamall og aldurhniginn. 3 Þið hafið sjálfir séð allt, sem Drottinn, Guð ykkar, gerði við allar þessar þjóðir frammi fyrir ykkur því að Drottinn, Guð ykkar, barðist fyrir ykkur. 4 Ég hef með hlutkesti úthlutað ættbálkum ykkar, hverri ætt fyrir sig, að erfðahlut öllu landi þeirra þjóða sem ég tortímdi og einnig þeirra sem enn eru eftir frá Jórdan að hafinu mikla í vestri. 5 Drottinn, Guð ykkar, mun sjálfur hrekja þessar þjóðir úr vegi ykkar, hann mun reka þær burt frá ykkur og þið munuð taka land þeirra til eignar, eins og Drottinn, Guð ykkar, hét ykkur. 6 Verið nú einbeittir og haldið allt sem skráð er í lögbók Móse og framfylgið því. Víkið hvorki til hægri né vinstri frá því. 7 Eigið ekki náið samneyti við þessar þjóðir sem enn eru eftir á meðal ykkar. Ákallið ekki guði þeirra, sverjið ekki við þá, þjónið þeim ekki og fallið ekki fram fyrir þeim. 8 Haldið ykkur hins vegar fast við Drottin, Guð ykkar, eins og þið hafið gert allt til þessa dags.
9 Drottinn hefur hrakið úr vegi ykkar miklar og voldugar þjóðir og allt til þessa dags hefur enginn getað veitt ykkur viðnám. 10 Einn ykkar getur stökkt þúsund á flótta því að Drottinn, Guð ykkar, berst sjálfur fyrir ykkur eins og hann hefur heitið ykkur.
11 Gætið þess af fremsta megni, líf ykkar liggur við, að elska Drottin, Guð ykkar. 12 En ef þið gerist honum fráhverfir og tengist þeim sem enn eru eftir af þjóðunum sem enn eru eftir meðal ykkar, mægist þeim eða eigið náin samskipti við þær og þær við ykkur, 13 þá skuluð þið vita með vissu að Drottinn, Guð ykkar, mun ekki framar hrekja þessar þjóðir úr vegi ykkar. Þær verða ykkur snara og gildra, baki ykkar svipa og þyrnir í augum ykkar þar til ykkur hefur verið eytt úr þessu góða landi sem Drottinn, Guð ykkar, gaf ykkur.
14 Sjálfur geng ég nú í dag veg allrar veraldar. En þið skuluð játa af öllu hjarta og allri sálu að ekkert fyrirheitanna sem voru ykkur í hag og Drottinn, Guð ykkar, gaf ykkur er óefnt, öll hafa þau ræst, ekkert þeirra hefur brugðist.
15 En eins og hvert gott fyrirheit sem Drottinn, Guð ykkar, gaf ykkur hefur verið efnt mun Drottinn standa við hverja hótun uns hann hefur gereytt ykkur úr þessu góða landi sem Drottinn, Guð ykkar, gaf ykkur. 16 Ef þið rjúfið sáttmála Drottins, Guðs ykkar, sem hann setti ykkur, farið og þjónið öðrum guðum og fallið fram fyrir þeim, mun reiði Drottins blossa upp gegn ykkur og þið munuð skjótlega hverfa úr þessu góða landi sem hann gaf ykkur.“