Uppsprettan í musterinu

1 Síðan leiddi maðurinn mig aftur að dyrum musterisins. Þá sá ég að vatn kom upp undan þröskuldi hússins og rann til austurs, en framhlið hússins sneri í austur. Vatnið streymdi upp við hægri hlið hússins, sunnan við altarið.
2 Þá leiddi hann mig út um norðurhliðið, fór með mig að musterishliðinu. Þar streymdi vatnið fram við suðurhliðina.
3 Þegar maðurinn kom út austan megin hafði hann mælikvarða í hendi. Hann mældi þúsund álnir og lét mig vaða yfir vatnið sem tók mér í ökkla. 4 Þá mældi hann aftur þúsund álnir og lét mig vaða yfir vatnið sem nú tók mér í hné. Hann mældi enn þúsund álnir og lét mig vaða yfir og þá tók vatnið mér í mjöðm. 5 Hann mældi enn þúsund álnir og var þá vatnið orðið að fljóti sem ég gat ekki vaðið yfir. Það var orðið svo djúpt að synda varð yfir það. Það var orðið óvætt fljót.
6 Hann spurði mig: „Mannssonur, sástu þetta?“ Því næst sneri hann við og leiddi mig aftur að fljótsbakkanum. 7 Þegar ég kom þangað aftur sá ég fjölmörg tré á fljótsbökkunum beggja vegna. 8 Þá sagði hann við mig: „Þetta vatn streymir út á landsvæðið fyrir austan, síðan rennur það niður Jórdanardal og fellur loks í hafið og þá verður saltvatnið heilnæmt 9 og allt sem lifir og hrærist, hvar svo sem fljótið streymir, mun lifa. Fiski mun fjölga stórum þar sem fljótið kemur því að þar verður vatnið heilnæmt og allt gæðist lífi þar sem fljótið streymir. 10 Frá En Gedí og alla leið til En Eglaím munu fiskimenn standa við það og þar verða net breidd til þerris. Þar verða fjölmargar tegundir fiska og fjöldi þeirra verður eins og í hafinu mikla.[ 11 En mýrarnar og fenin fá ekki ferskt vatn, þau eru ætluð til saltvinnslu. 12 En á báðum bökkum fljótsins munu hvers kyns aldintré vaxa. Lauf þeirra mun ekki visna og ávextirnir, sem þau bera, aldrei þverra. Í hverjum mánuði bera þau nýja ávexti því að vatnið í fljótinu kemur frá helgidóminum. Ávextirnir verða hafðir til matar og blöðin til lækninga.“

Skipting landsins

13 Svo segir Drottinn Guð: Þetta eru landamæri landsins sem þið skuluð skipta á milli hinna tólf ættbálka Ísraels í erfðalönd. Jósef skal þó fá tvo hluti. 14 Hver þeirra skal fá þar erfðaland eins og ættbróðir hans þar sem ég sór með upplyftri hendi að gefa feðrum ykkar þetta land og það skal verða erfðaland ykkar.
15 Þetta eru landamæri landsins:
Að norðanverðu liggja landamærin frá hafinu mikla í áttina að Hetlón og til Lebó Hamat, Sedad, 16 Beróa, Sibraím, sem er á mörkum landanna sem heyra til Damaskus og Hamat, allt að Hasar Enón við landamæri Havrans. 17 Landamærin liggja því frá hafinu til Hasar Enón, þannig að löndin sem heyra til Damaskus og lönd Hamats eru norðan þeirra. Þetta eru landamærin að norðanverðu.
18 Að austanverðu eru landamærin milli Havran og Damaskus með fram Jórdan, sem er á landamærum Gíleaðs og lands Ísraels, og að austurhafinu allt að Tamar. Þetta eru landamærin austan megin.
19 Að sunnanverðu liggja landamærin frá Tamar til Meribavatna við Kades og að læknum sem rennur í hafið mikla. Þetta eru landamærin að sunnanverðu í Negeb.
20 Að vestanverðu eru landamærin við hafið mikla að stað gegnt Lebo Hamat. Það eru landamærin að vestanverðu.
21 Þessu landi skuluð þið skipta á milli ættbálka Ísraels. 22 Þið skuluð skipta því með hlutkesti í erfðalönd milli ykkar og þeirra aðkomumanna sem hafa leitað hælis hjá ykkur og hafa eignast börn hjá ykkur. Þið skuluð telja þá með innfæddum Ísraelsmönnum. Þeir skulu ásamt ykkur hljóta erfðaland á meðal ættbálka Ísraels. 23 Þið skuluð fá aðkomumanninum erfðaland hjá þeim ættbálki sem hann hefur leitað hælis hjá, segir Drottinn Guð.