Viðauki

Fall Jerúsalem

1 Sedekía var tuttugu og eins árs þegar hann varð konungur og ríkti í Jerúsalem ellefu ár. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir frá Líbna. 2 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins eins og Jójakím. 3 Vegna reiði Drottins fór þannig fyrir Jerúsalem og Júda og þar kom að hann rak þau frá augliti sínu.
Sedekía gerði uppreisn gegn konunginum í Babýlon. 4 Á níunda stjórnarári Sedekía bar svo við á tíunda degi tíunda mánaðar að Nebúkadresar, konungur í Babýlon, kom til Jerúsalem með allan her sinn og settist um hana. Þeir reistu virki til árása umhverfis hana 5 og var borgin umsetin til ellefta stjórnarárs Sedekía konungs. 6 Á níunda degi í fjórða mánuðinum, þegar hungursneyðin var orðin mikil í borginni og enga fæðu að hafa handa íbúunum, 7 var borgarmúrinn rofinn. Um nóttina flýðu allir vopnfærir menn gegnum hliðið milli múranna tveggja gegnt garði konungsins. Tókst þeim og konungi að flýja þó að Kaldear umkringdu borgina og héldu í átt til Arabasléttunnar. 8 En hermenn Kaldea veittu konungi eftirför og náðu honum á Jeríkósléttunni. Þá hafði allur her hans yfirgefið hann og tvístrast.
9 Þeir tóku konunginn og fóru með hann til Babýloníukonungs í Ribla í Hamathéraði sem kvað upp dóm yfir honum. 10 Babýloníukonungur lét hálshöggva syni Sedekía fyrir augum hans. Hann lét einnig hálshöggva alla höfðingja Júda í Ribla. 11 Hann lét stinga augun úr Sedekía og setja hann í hlekki. Því næst lét konungurinn í Babýlon flytja hann til Babýlonar og hafði hann í haldi til dauðadags.

Hús Drottins lagt í rúst

12 Á tíunda degi fimmta mánaðar, á nítjánda stjórnarári Nebúkadresars Babýloníukonungs, kom til Jerúsalem Nebúsaradan, foringi lífvarðarins, sem þjónaði konunginum. 13 Hann lagði eld að húsi Drottins, húsi konungs og öllum öðrum húsum í Jerúsalem. Hann brenndi öll vegleg hús. 14 Hermenn Kaldea, sem foringi lífvarðarins stjórnaði, rifu niður múrana umhverfis Jerúsalem. 15 Nebúsaradan lífvarðarforingi flutti í útlegð þá sem eftir voru í borginni ásamt liðhlaupunum sem gengið höfðu konungi Babýlonar á hönd og þá sem eftir voru af handverksmönnunum. 16 Nebúsaradan lífvarðarforingi skildi aðeins eftir nokkra fátæklinga til að erja víngarða og akra.
17 Eirsúlurnar í húsi Drottins, vagngrindurnar og eirhafið í húsi Drottins brutu Kaldear í sundur og fluttu eirinn til Babýlonar. 18 Þeir tóku með sér kerin, skóflurnar, skarbítana, skálarnar og öll eiráhöldin sem notuð voru við guðsþjónustuna. 19 Foringi lífvarðarins tók einnig katlana, eldpönnurnar, skálarnar, pottana, ljósastikurnar, bollana og kerin, allt sem var úr gulli og silfri. 20 Súlurnar tvær, hafið ásamt tólf nautum úr eir undir því og vagngrindurnar, sem Salómon konungur hafði látið gera fyrir hús Drottins, allt var það gert úr svo miklum eir að það varð ekki vegið. 21 Önnur súlan var átján álnir á hæð og tólf álna langan þráð þurfti til þess að ná utan um hana. Hún var fjögurra fingra þykk og hol að innan. 22 Ofan á henni var súlnahöfuð úr eir, fimm álnir á hæð. Net með granateplum var umhverfis súlnahöfuðið. Allt þetta var úr eir. Hin súlan var eins. 23 Granateplin, sem héngu laus, voru níutíu og sex, alls voru hundrað granatepli allt umhverfis á netinu.
24 Foringi lífvarðarins tók einnig Seraja yfirprest til fanga, Sefanía prest, sem næst honum gekk, og hliðverðina þrjá. 25 Úr borginni tók hann hirðmann þann sem hafði eftirlit með hermönnunum, sjö af nánustu þjónum konungs sem enn voru í borginni, ritara hershöfðingjans sem annaðist herkvaðningu og sextíu alþýðumenn sem enn voru í borginni. 26 Nebúsaradan lífvarðarforingi tók þá höndum og fór með þá til Ribla til konungsins í Babýlon. 27 Konungur lét höggva þá til bana í Ribla í Hamathéraði. Þannig voru íbúar Júda fluttir í útlegð úr landi sínu.
28 Þetta er fjöldi þess fólks sem Nebúkadresar lét flytja í útlegð: Á sjöunda stjórnarári hans 3023 Júdamenn, 29 á átjánda ári Nebúkadresars 832 menn frá Jerúsalem, 30 á tuttugasta og þriðja stjórnarári Nebúkadresars flutti Nebúsaradan lífvarðarforingi 745 Júdamenn í útlegð. Alls voru þetta 4600 manns.

Jójakín náðaður

31 Á þrítugasta og sjöunda útlegðarári Jójakíns Júdakonungs, á tuttugasta og fimmta degi í tólfta mánuði, árið sem Evíl Merodak varð konungur í Babýlon, náðaði hann Jójakín Júdakonung og sleppti honum úr fangelsinu. 32 Hann sýndi honum velvild og vísaði honum til sætis ofar hinum konungunum sem voru hjá honum í Babýlon. 33 Jójakín þurfti ekki að bera fangabúning framar og það sem hann átti ólifað sat hann til borðs með konungi. 34 Meðan hann lifði veitti konungur Jójakín reglulega það sem hann þurfti sér til daglegs viðurværis.