Gegn ágirnd ofríkismanna

1Vei þeim sem efna til ranginda,
hyggja á ill verk í hvílu sinni
og vinna þau þegar dagur rennur,
því að þess eru þeir megnugir.
2Þeir ágirnast akra
og ræna þeim,
hús og stela þeim.
Þeir svipta menn heimilum sínum
og fólkið arfleifð sinni.
3Vegna þessa segir Drottinn:
Meiri ógæfu baka ég þessari kynslóð
en þér fáið risið undir.
Uppréttir munuð þér eigi ganga,
slík verður sú hörmungatíð.
4Á þeim degi
verður níð kveðið um yður
og harmasöngur hafinn:
„Vér erum glataðir.
Eignum þjóðar minnar er svipt burt,
landið tekið af henni
og því deilt milli kúgara.“
5Og sannarlega mun enginn yðar
kasta mælisnúru [ yfir land
í viðurvist safnaðar Drottins.
6„Hættið þessu þrugli,“ þrugla þeir.
„Engin þörf er á svona þrugli.
Vor bíður engin smán.“
7Er fordæming þá komin yfir ætt Jakobs?
Er Drottinn orðinn bráðlyndur?
Er þetta háttur hans?
Boða orð hans hinum ráðvöndu ekki gæfu?
8En þér rísið gegn þjóð minni [
sem fjandmenn,
þér rífið kyrtilinn af hinum friðsama
og ugglausa vegfarendur takið þér herfangi.
9Þér rekið konur þjóðar minnar
af heimilunum, sem voru yndi þeirra,
og sviptið börn þeirra að eilífu heiðrinum
sem þau hafa þegið af mér.
10Burt héðan. Farið burt.
Hér eigið þér engan samastað.
Spilling yðar saurgar
og ber í sér ómælda hörmung.
11En kæmi nú hræsnari
og boðaði hégóma og lygi sem svo:
„Ég boða þér vín og áfengan drykk,“
þá væri það spámaður fyrir þvílíka þjóð.

Fyrirheit

12Ég mun safna yður öllum saman,
Jakobs ætt,
og smala saman sauðum Ísraels eins og sauðfé í rétt,
eins og hjörð í haga,
og þá verður kliðurinn mikill af mannmergðinni.
13Fyrir þeim fer brautryðjandinn,
þeir ryðjast út um hliðið.
Fremstur fer konungur þeirra
og Drottinn í broddi fylkingar.