Endurreisn múra Jerúsalem

1 Eljasíb æðsti prestur og hinir prestarnir, embættisbræður hans, hófu verkið og endurreistu Sauðahliðið. Þeir endurnýjuðu það og komu vængjahurðum fyrir í því. Þeir héldu áfram að Hundraðmannaturni og þaðan að Hananelturni.
2 Við hlið þeirra unnu menn frá Jeríkó að byggingunni og við þeirra hlið Sakkúr Imríson.
3 Synir Senaa endurreistu Fiskhliðið. Þeir komu fyrir bjálkum og vængjahurðum, lás og slagbröndum.
4 Við hlið þeirra vann að viðgerðinni Meremót Úríason, Hakkóssonar. Næstur honum vann Mesúllam Berekíason, Mesesabeelssonar, að viðgerðinni. Við hliðina á honum Sadók Baanason.
5 Við hliðina á honum unnu menn frá Tekóa að viðgerðinni en aðalsmennirnir á meðal þeirra vildu ekki beygja svírann og þjóna herra sínum.
6 Jójada Paseason og Mesúllam Besódíason gerðu við Jesanahliðið. Þeir komu fyrir bjálkum, vængjahurðum, lás og slagbröndum.
7 Við hlið þeirra vann Melatja frá Gíbeon að viðgerðinni ásamt Jadón frá Merónót og mönnum frá Gíbeon og Mispa þar sem var aðsetur landstjóra skattlandsins handan Fljóts.
8 Við hlið þeirra vann Ússíel Harhajason, einn af gullsmiðunum, að viðgerðinni og næstur honum Hananja, einn af smyrslagerðarmönnunum. Þeir víggirtu Jerúsalem að breiða múrnum.
9 Við hlið þeirra vann Refaja Húrsson sem stjórnaði hálfu Jerúsalemhéraði.
10 Við hlið hans vann Jedaja Harúmafsson að viðgerðinni gegnt húsi sínu, næstur honum Hattús Hasabnejason.
11 Malkía Harímsson og Hasúb Pahat Móabsson gerðu við múrinn á öðrum stað svo og Ofnturninn.
12 Við hlið þeirra vann Sallúm Hallóhesson að viðgerðinni, sá sem stjórnaði hinum helmingi Jerúsalemhéraðs. Dætur hans unnu með honum.
13 Hanún og íbúarnir í Sanóa gerðu við Dalshliðið. Þeir reistu það að nýju og komu fyrir í því vængjahurðum, lás og slagbröndum. Þeir gerðu einnig við þúsund álnir af borgarmúrnum, allt að Öskuhliðinu.
14 Malkía Rehabsson, stjórnandi Keremhéraðs, gerði við Öskuhliðið. Hann reisti það að nýju og kom fyrir í því vængjahurðum, lás og slagbröndum.
15 Sallún Kol Hóeson, stjórnandi Mispahéraðs, gerði við Lindarhliðið. Hann reisti það að nýju, gerði á það þak og kom fyrir í því vængjahurðum, lás og slagbröndum. Enn fremur gerði hann við múrinn við vatns veitutjörnina hjá garði konungs, allt að þrepunum sem liggja niður frá borg Davíðs.
16 Næstur honum var Nehemía Asbúksson, sá sem stjórnaði hálfu Bet Súrhéraði, og vann hann að viðgerðinni þar til komið var að stað einum gegnt gröfum Davíðs og að tilbúnu tjörninni og að herbúðunum.
17 Næstir honum unnu Levítarnir að viðgerðinni. Það voru þeir Rehúm Baníson og næstur honum Hasabja, sá sem stjórnaði helmingi Kegíluhéraðs, og vann hann fyrir hérað sitt.
18 Næstir honum unnu bræður þeirra og fór Bavvaí Henadadsson, sá sem stjórnaði hinum helmingi Kegíluhéraðs, fyrir þeim. 19 Við hlið hans vann Eser Jesúason, höfðingi yfir Mispa, að viðgerð á öðrum hluta múrsins, gegnt veginum upp að vopnabúrinu við hornið á múrnum.
20 Næstur honum vann Barúk Sabbaíson við múrinn, frá horninu og að dyrunum á húsi Eljasíbs æðsta prests.
21 Næstur honum vann Meremót Úríason, Hakkóssonar. Hann gerði við múrinn frá dyrunum og að endanum á húsi Eljasíbs.
22 Næstir honum voru prestarnir sem bjuggu í grenndinni og unnu að viðgerðinni.
23 Næstir þeim voru Benjamín og Hassúb og unnu að viðgerðinni gegnt húsi sínu.
Næstur þeim var Asarja Maasejason, Ananjasonar, og vann að viðgerðinni við hliðina á húsi sínu.
24 Næstur honum vann Binnúí Henadadsson. Hann gerði við múrinn frá húsi Asarja að beygjunni og áfram að horninu.
25 Palal Úsaíson vann að viðgerðinni gegnt beygjunni á múrnum og turninum sem gengur út úr efra húsi konungs við garð varðliðsins.
Næstur honum vann Pedaja Parósson.
26 Musterisþjónarnir bjuggu í Ófel. Þeir unnu að viðgerðinni austur að Vatnshliðinu og turninum sem gengur út úr húsi konungs.
27 Næstir Pedaja unnu menn frá Tekóa og gerðu við múrinn frá stað gegnt stóra turninum, sem gengur út úr húsi konungs, að Ófelmúrnum.
28 Ofan við Hestahliðið unnu prestarnir að viðgerðinni, hver gegnt húsi sínu.
29 Næstur þeim var Sadók Immersson. Hann vann að viðgerðinni gegnt húsi sínu.
Næstur honum vann Semaja, sonur Sekanja, vörður Austurhliðsins.
30 Næstir honum voru Hananja Selemjason og Hanún, sjötti sonur Salafs. Þeir gerðu við hluta múrsins.
Næstur þeim vann Mesúllam Berekíason að viðgerðinni gegnt vistarveru sinni.
31 Næstur honum var Malkía, einn af gullsmiðunum. Hann vann að viðgerðinni að húsi musterisþjónanna og kaupmannanna gegnt Varðhliðinu og að Hornturninum.
32 Að viðgerðinni milli Hornturnsins og Sauðahliðsins unnu gullsmiðir og kaupmenn.
33 Þegar Sanballat frétti að við værum að endurreisa borgarmúrinn varð hann bæði gramur og reiður. Hann hæddi Gyðingana[ 34 og sagði frammi fyrir bræðrum sínum og herliðinu í Samaríu:
„Hvað eru þessir aumu Gyðingar að gera? Halda þeir að þeir geti lokið þessu? Ætla þeir að fara að færa fórnir og ljúka þessu á einum degi? Ætla þeir að gæða steinana í rústunum lífi á ný þótt brunnir séu?“
35 Tobía Ammóníti stóð við hlið hans og sagði: „Hvað svo sem þeir eru að byggja þá hrynur þessi steinveggur þeirra ef svo mikið sem refur stígur á hann.“

Bæn Nehemía

36 „Heyr, Guð, hvernig vér erum hafðir að háði og spotti. Lát svívirðingar þeirra koma þeim sjálfum í koll og lát ræna þeim og flytja til framandi lands. 37 Dyldu ekki glæpi þeirra og lát synd þeirra aldrei afmást frammi fyrir þér því að þeir hafa egnt þá til reiði sem unnu að endurreisninni.“

Varnir gegn andstæðingum

38 En við unnum áfram að því að endurreisa múrinn og allur múrinn náði hálfri hæð því að fólkið var heils hugar við verkið.