Asaría (Ússía) Júdakonungur

1 Á tuttugasta og sjöunda stjórnarári Jeróbóams Ísraelskonungs varð Asaría konungur[ en hann var sonur Amasía Júdakonungs. 2 Hann var sextán ára þegar hann varð konungur og ríkti fimmtíu og tvö ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Jekolja og var frá Jerúsalem. 3 Hann gerði það sem rétt var í augum Drottins, alveg eins og Amasía, faðir hans. 4 Fórnarhæðirnar voru þó ekki aflagðar og fólkið hélt áfram að færa sláturfórnir og reykelsisfórnir á hæðunum. 5 Drottinn laust þá konunginn svo að hann var holdsveikur allt til dauðadags og bjó í sérstöku húsi en Jótam, sonur konungs, varð hirðstjóri og ríkti yfir þjóðinni.
6 Það sem ósagt er af sögu Asaría og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga. 7 Asaría var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn hjá þeim í borg Davíðs. Jótam, sonur hans, varð konungur eftir hann.

Sakaría Ísraelskonungur

8 Á þrítugasta og áttunda stjórnarári Asaría, konungs í Júda, varð Sakaría Jeróbóamsson konungur yfir Ísrael og ríkti sex mánuði í Samaríu. 9 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins eins og forfeður hans. Hann sneri ekki baki við þeim syndum sem Jeróbóam Nebatsson kom Ísrael til að drýgja. 10 Sallúm Jabesson gerði samsæri gegn honum, drap hann í Jibleam og varð konungur eftir hann.
11 Það sem ósagt er af sögu Sakaría er skráð í annála Ísraelskonunga. 12 Þar með rættist orð Drottins sem hann hafði flutt Jehú: „Synir þínir skulu sitja í hásæti Ísraels í fjóra ættliði.“

Sallúm Ísraelskonungur

13 Sallúm Jabesson varð konungur á þrítugasta og níunda stjórnarári Ússía, konungs í Júda, og ríkti mánaðartíma í Samaríu. 14 En Menahem Gadíson hélt frá Tirsa og kom til Samaríu. Hann drap Sallúm Jabesson í Samaríu og varð konungur eftir hann. 15 Það sem ósagt er af sögu Sallúms og samsærinu, sem hann gerði, er skráð í annála Ísraelskonunga.
16 Á leið sinni frá Tirsa eyddi Menaham Tappúaborg og öllu sem í henni var af því að borgarhliðunum hafði ekki verið lokið upp. Hann lét rista allar þungaðar konur á kvið.

Menahem Ísraelskonungur

17 Á þrítugasta og níunda stjórnarári Asaría Júdakonungs varð Menahem Gadíson konungur yfir Ísrael. Hann ríkti tíu ár í Samaríu. 18 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann sneri ekki baki við þeim syndum Jeróbóams Nebatssonar sem hann fékk Ísrael til að drýgja. 19 Á stjórnartíma hans réðst Púl[ Assýríukonungur inn í landið. Menahem gaf honum þúsund talentur silfurs til þess að Púl tryggði konungdóm hans. 20 Menahem jafnaði upphæðinni niður á alla auðmenn í Ísrael og skyldi hver þeirra um sig greiða Assýríukonungi fimmtíu sikla silfurs. Hélt þá Assýríukonungur á brott og hafði ekki lengri viðdvöl í landinu.
21 Það sem ósagt er af sögu Menahems og verkum hans er skráð í annála Ísraelskonunga. 22 Menahem var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum. Pekaja, sonur hans, varð konungur eftir hann.

Pekaja Ísraelskonungur

23 Á fimmtugasta stjórnarári Asaría, konungs í Júda, varð Pekaja Menahemsson konungur yfir Ísrael og ríkti tvö ár í Samaríu. 24 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann sneri ekki baki við þeim syndum sem Jeróbóam Nebatsson kom Ísrael til að drýgja. 25 Peka Remaljason, liðsforingi hans, gerði samsæri gegn honum og drap hann í íbúð konungs í höllinni í Samaríu. Peka hafði fimmtíu menn frá Gíleað með sér, drap Pekaja og varð konungur eftir hann. 26 Það sem ósagt er af sögu Pekaja og verkum hans er skráð í annála Ísraelskonunga.

Peka Ísraelskonungur

27 Á fimmtugasta og öðru stjórnarári Asaría, konungs í Júda, varð Peka Remaljason konungur yfir Ísrael og ríkti tuttugu ár í Samaríu. 28 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann sneri ekki baki við þeim syndum sem Jeróbóam Nebatsson kom Ísrael til að drýgja.
29 Í stjórnartíð Peka Ísraelskonungs kom Tíglat Píleser Assýríukonungur og tók Íjón, Abel Bet Maaka, Janóa, Kades, Hasór, Gíleað og Galíleu, allt Naftalíland, og flutti íbúana í útlegð til Assýríu. 30 Þá gerði Hósea Elason samsæri gegn Peka Remaljasyni, drap hann og varð konungur eftir hann á tuttugasta stjórnarári Jótams Ússíasonar. 31 Það sem ósagt er af sögu Peka og verkum hans er skráð í annála Ísraelskonunga.

Jótam Júdakonungur

32 Á öðru stjórnarári Peka Remaljasonar varð Jótam Ússíason Júdakonungur. 33 Hann var tuttugu og fimm ára þegar hann varð konungur og ríkti sextán ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Jerúsa og var Sadóksdóttir. 34 Hann gerði það sem rétt var í augum Drottins, alveg eins og Ússía, faðir hans. 35 Fórnarhæðirnar voru þó ekki aflagðar og fólkið hélt áfram að færa sláturfórnir og reykelsisfórnir á hæðunum. Það var Jótam sem lét reisa efra hliðið í musteri Drottins. 36 Það sem ósagt er af sögu Jótams og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga. 37 Um þetta leyti tók Drottinn að láta Resín, konung Arams, og Peka Remaljason ráðast á Júda.
38 Jótam var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn hjá þeim í borg Davíðs, forföður síns. Akas, sonur hans, varð konungur eftir hann.