1 Bæn Davíðs.
Hlusta, Drottinn, á það sem rétt er,
hlýð á hróp mitt,
ljá eyra bæn minni
sem ég flyt falslausum vörum.
2Lát rétt minn koma frá augliti þínu,
augu þín sjá hvað rétt er.
3Þú prófar hjarta mitt,
rannsakar mig en finnur ekkert illt,
munnur minn hefur ekki syndgað.
4Hvað sem mennirnir gera
held ég mér við orðin af vörum þínum,
forðast vegu lögbrjóta.
5Skref mín eru örugg á vegum þínum,
mér skrikar ekki fótur.
6Ég hrópa til þín því að þú svarar mér, Guð,
hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.
7Sýn undursamlega trúfesti þína,
þú bjargar þeim með hægri hendi þinni
sem leita hælis undan ofsækjendum sínum.
8Varðveit mig sem sjáaldur augans,
fel mig í skugga vængja þinna
9fyrir hinum guðlausu sem þjaka mig,
fyrir gráðugum fjandmönnum sem umkringja mig.
10Hjarta þeirra er forhert, [
munnur þeirra mælir hrokafull orð.
11Þeir elta mig uppi, nú umkringja þeir mig,
þeir leita færis á að varpa mér til jarðar.
12Þeir líkjast ljóni sem hungrar í bráð,
ungu ljóni sem liggur í leyni.
13Rís upp, Drottinn, far gegn óguðlegum,
fell hann, bjarga lífi mínu með sverði þínu.
14Bjarga mér undan mönnum með hendi þinni, Drottinn,
undan mönnum sem hafa hlotið sinn skerf af heimsins gæðum.
Þú mettar þá sem þú verndar,
seður syni þeirra
og þeir safna auði handa börnum sínum.
15Ég mun í réttlæti skoða auglit þitt,
mettast af mynd þinni þegar ég vakna.