Nehemía hjálpar fátækum

1 Nú tók fólkið, bæði karlmennirnir og konur þeirra, að kvarta sáran yfir ættbræðrum sínum, Gyðingunum. 2 Sumir sögðu: „Synir okkar og dætur eru of mörg til að við getum fengið korn til matar og haldið lífi.“ 3 Aðrir sögðu: „Við verðum að veðsetja akra okkar, víngarða og hús til að fá korn í þessari hungursneyð.“
4 Enn aðrir sögðu: „Við höfum tekið fé að láni gegn veði í ökrum okkar og víngörðum til að greiða konungi skatt. 5 Þótt við séum af sama holdi og ættbræður okkar og börn okkar séu eins og börn þeirra verðum við að lítillækka syni okkar og dætur og gera þau að þrælum. Nokkrar af dætrum okkar hafa nú þegar verið lítillækkaðar en við höfum engan mátt til neins þar sem akrar okkar og víngarðar eru nú þegar annarra eign.“
6 Ég reiddist mjög þegar ég heyrði kvein þeirra og þessi ummæli. 7 Þegar ég hafði hugsað ráð mitt ásakaði ég aðalsmennina og embættismennina og sagði: „Hver og einn ykkar leggur byrði á bræður sína.“
Vegna þeirra kallaði ég saman mikinn mannsöfnuð 8 og sagði: „Eftir því sem við höfum getað höfum við keypt frjálsa ættbræður okkar, Gyðinga sem hafa orðið að selja sig til framandi þjóða. En þið seljið bræður ykkar svo að þeir verði aftur seldir okkur.“
Þar sem þeir þögðu og gátu engu svarað 9 hélt ég áfram: „Það sem þið eruð að gera er ekki rétt. Ættuð þið ekki að lifa í ótta við Guð okkar og komast þannig hjá háði annarra þjóða sem eru okkur fjandsamlegar? 10 Ég, bræður mínir og menn mínir, höfum einnig lánað ættbræðrum okkar fé og korn en við gefum þeim skuldina eftir. 11 Fáið þeim aftur þegar í stað akra sína, víngarða, olíuviðarlundi og hús og gefið þeim eftir það sem þið hafið lánað þeim og þeir skulda af fé, korni, víni og olíu.“
12 Þá svöruðu þeir: „Við skulum fá þeim þetta aftur og einskis krefjast af þeim. Við munum gera það sem þú hefur farið fram á.“
Ég kallaði þá á prestana og lét þá taka af þeim eið að því að gera það sem þeir höfðu sagt. 13 Þá hristi ég skikkjubarm minn og sagði: „Á sama hátt mun Guð hrista úr húsi sínu og af eign sinni hvern þann sem ekki heldur þennan eið. Hann verður hristur burt og tæmdur.“
Öll samkoman svaraði: „Amen,“ og lofaði Drottin. Fólkið hélt þennan eið.
14 Frá þeim degi, er ég hlaut skipun í embætti landstjóra í skattlandinu Júda, frá tuttugasta stjórnarári Artaxerxesar konungs til þess þrítugasta og annars, í tólf ár, lifði hvorki ég sjálfur né bræður mínir af risnu landstjórans. 15 Fyrri landstjórar, sem voru á undan mér, lögðu þungar álögur á fólkið. Þeir tóku af því fjörutíu sikla silfurs á dag fyrir mat og víni og menn þeirra kúguðu fólkið. En ég fór ekki þannig að af því að ég óttaðist Guð.
16 Ég vann einnig að því að reisa þennan múr enda þótt ég hefði ekki keypt land. Allir menn mínir unnu saman að verkinu. 17 Hundrað og fimmtíu Gyðingar og embættismenn snæddu við borð mitt ásamt ýmsum sem komu til okkar frá þjóðunum umhverfis. 18 Daglega var eitt naut matreitt á minn kostnað, ásamt sex úrvalssauðum og fuglum. Á tíu daga fresti var einnig borið fram mikið af ýmiss konar víni. Þrátt fyrir þetta krafðist ég ekki þeirrar risnu sem landstjóra bar því að kvaðavinnan íþyngdi fólkinu mjög. 19 Guð, minnstu alls þess sem ég hef gert fyrir þessa þjóð. Láttu það verða mér til góðs.