Jerúsalem mun falla

1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni þegar Sedekía konungur sendi Pashúr Malkíason og Sefanía prest Maasejason til hans með þessa orðsendingu: 2 Leitaðu ráða hjá Drottni fyrir oss því að Nebúkadresar konungur í Babýlon herjar á oss. Ef til vill mun Drottinn gera fyrir oss eitt af mörgum kraftaverkum sínum og knýja Nebúkadresar til undanhalds.
3 Jeremía sagði við þá: Þetta skuluð þér segja við Sedekía: 4 Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Ég mun snúa vopnunum í höndum yðar gegn yður þegar þér farið að berjast með þeim við konunginn í Babýlon og Kaldea sem sækja að yður utan við borgarmúrana. Ég mun safna þeim saman mitt í þessari borg. 5 Ég mun sjálfur berjast gegn yður með uppréttri hendi og sterkum armi, með reiði, heift og mikilli bræði. 6 Ég mun ljósta íbúa þessarar borgar, bæði menn og skepnur, þeir skulu deyja í ógurlegri drepsótt. 7 Eftir það, segir Drottinn, mun ég selja Sedekía Júdakonung ásamt hirðmönnum hans og þjóð og öllum í þessari borg, sem hafa bjargast undan drepsótt, sverði og hungri, í hendur Nebúkadresari Babýloníukonungi og í hendur fjandmönnum þeirra og þeirra sem sækjast eftir lífi þeirra. Þeir munu fella þá með sverðseggjum hlífðarlaust, vægðarlaust og miskunnarlaust.
8 Og enn skaltu segja þessu fólki: Svo segir Drottinn: Ég legg fyrir yður veginn til lífsins og veginn til dauðans. 9 Sá sem verður um kyrrt í þessari borg mun láta lífið fyrir sverði, hungri og drepsótt. En sá sem gengur út og gefst upp fyrir Kaldeunum sem sitja um yður mun lifa og fá eigið líf að herfangi. 10 Því að ég sný andliti mínu gegn þessari borg til að færa henni ógæfu en ekki heill, segir Drottinn. Hún verður seld konunginum í Babýlon í hendur, hann mun brenna hana í eldi.

Skyldur konungsins

11Til konungsættar Júda:
Hlýðið á orð Drottins, 12 ætt Davíðs.
Svo segir Drottinn:
Fellið réttláta dóma hvern morgun,
bjargið úr greipum kúgarans
þeim sem rænt hefur verið
svo að heift mín brjótist ekki út sem eldur
vegna illvirkja þeirra,
bál sem enginn getur slökkt.
13Nú ræðst ég gegn þér sem gnæfir yfir dalinn,
gegn klettinum á sléttunni, segir Drottinn.
Þér spyrjið: Hver getur ráðist á oss
og hver kemst inn í bústaði vora?
14Ég dreg yður til ábyrgðar fyrir verk yðar,
segir Drottinn,
og legg eld að skóginum,
hann skal gleypa allt umhverfis sig.