Guði þóknanlegar föstur

1Kalla þú fullum hálsi og dragðu ekki af,
hef upp rödd þína eins og hafurshorn
og segðu þjóð minni frá afbrotum hennar
og niðjum Jakobs frá syndum þeirra.
2Þeir leita svara hjá mér dag eftir dag
því að þeir vilja þekkja vegi mína.
Eins og þjóð sem iðkar réttlæti
og víkur ekki frá boðum Guðs síns
krefja þeir mig um réttan dóm
og vilja að Guð nálgist þá.
3Hvers vegna föstum vér en þú sérð það ekki,
þjökum oss en þú tekur ekki eftir því?
Daginn, sem þér fastið, stundið þér verslun
og haldið verkamönnum yðar að verki.
4Þér fastið til að þræta og deila
og sláið með krepptum hnefa.
Fastið ekki eins og í dag
ef rödd yðar á að heyrast í upphæðum.
5Er sú fasta sem mér líkar
sá dagur er menn þjaka sig,
láta höfuðið hanga eins og sef
og leggjast í sekk og ösku?
Kallar þú slíkt föstu
og dag sem Drottni geðjast?
6Nei, sú fasta sem mér líkar
er að leysa fjötra rangsleitninnar,
láta rakna bönd oksins,
gefa frjálsa hina hrjáðu
og sundurbrjóta sérhvert ok,
7það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
hýsir bágstadda, hælislausa menn
og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.
8Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði
og sár þín gróa skjótt,
réttlæti þitt fer fyrir þér
en dýrð Drottins fylgir eftir.
9Þá muntu kalla og Drottinn svara,
biðja um hjálp og hann mun segja: „Hér er ég.“
Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
hættir hæðnisbendingum og rógi,
10réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
og seður þann sem bágt á,
þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.
11Drottinn mun stöðugt leiða þig,
seðja þig í skrælnuðu landi
og styrkja bein þín.
Þú munt líkjast vökvuðum garði,
uppsprettu sem aldrei þrýtur.
12Menn þínir munu endurreisa hinar fornu rústir,
þú munt reisa við undirstöður fyrri kynslóða
og þú verður nefndur: múrskarðafyllir,
sá sem reisir byggð úr rústum.

Hvíldardagurinn

13Ef þú varast að vanhelga hvíldardaginn,
varast að gegna störfum þínum á helgum degi mínum,
ef þú kallar hvíldardaginn fagnaðardag,
dag helgaðan Drottni, gleðidag,
og heiðrar hann með því að hafast ekkert að
og sinnir ekki hugðarefnum þínum eða masar,
14muntu gleðjast yfir Drottni.
Þá mun ég láta þig ríða yfir hæðir landsins
og njóta arfsins eftir föður þinn, Jakob,
því að munnur Drottins hefur talað það.