Iðrun og endurlausn

1Sjá, hönd Drottins er eigi svo stutt að hann geti ekki hjálpað
og eyra hans ekki svo dauft að hann heyri ekki.
2Nei, sekt yðar skilur yður frá Guði yðar,
syndir yðar hylja auglit hans
svo að hann hlustar ekki á yður.
3Lófar yðar eru ataðir blóði
og fingur yðar misgjörðum,
varir yðar tala lygi,
tunga yðar hvíslar rógi.
4Enginn kærir vegna rétts málstaðar
og enginn fer í mál af heilindum,
menn treysta fánýti og fara með þvaður,
ganga með fals og fæða illgjörðir.
5Þeir klekja út nöðrueggjum
og vefa köngulóarvef,
hver sem etur egg þeirra deyr,
sé á þeim troðið klekjast eiturnöðrur.
6Spuni þeirra verður aldrei klæði
og enginn klæðist vefnaði þeirra.
Verk þeirra eru ódæði
og ofbeldi er í lófum þeirra.
7Fætur þeirra eru skjótir til ills,
fljótir til að úthella saklausu blóði.
Hugsanir þeirra eru illar,
eyðing og tortíming er á vegum þeirra.
8Veg friðarins þekkja þeir ekki
og réttlæti er ekki í sporum þeirra.
Þeir gerðu vegi sína hlykkjótta,
enginn, sem á þeim gengur, þekkir frið.
9Því er rétturinn oss fjarlægur
og réttlætið nær ekki til vor.
Vér væntum ljóss en það er myrkur,
væntum dagsbirtu en göngum í niðdimmu.
10Vér þreifum oss fram með vegg eins og blindir,
fálmum líkt og menn án augna.
Vér hrösum um hábjartan dag eins og í rökkri,
erum sem dauðir meðal þeirra sem eru í blóma lífsins.
11Vér rymjum allir sem birnir,
kurrum eins og dúfur,
vér væntum réttar en hann er ekki hér,
væntum hjálpar en hún er oss fjarri.
12Vér höfum oft brotið gegn þér
og syndir vorar vitna gegn oss.
Þar sem afbrot vor eru stöðugt hjá oss
þekkjum vér syndir vorar.
13Vér höfum risið gegn Drottni og afneitað honum,
snúið frá fylgd við Guð vorn,
hvatt til ofbeldis og svika,
alið á lygum í hjarta og boðað þær.
14Þannig er rétturinn hrakinn burt
og réttlæti stendur víðs fjarri
því að sannleikurinn hrasaði á torginu,
hreinskilnin komst ekki að.
15Sannleikann er hvergi að finna,
sá sem forðast illt verður rændur.
Drottinn sá það
og honum mislíkaði réttleysið.
16Hann sá að þar var enginn,
undraðist að enginn skarst í leikinn
en armur hans sjálfs hjálpaði honum
og réttlæti hans studdi hann.
17Hann íklæddist réttlæti sem brynju
og hjálmur hjálpræðis var á höfði hans,
hann klæddist klæðum hefndarinnar,
sveipaði sig skikkju afbrýðinnar.
18Hann geldur eftir verkum:
eins og menn hafa unnið til, svo mun hann gjalda,
geldur heift andstæðingum sínum,
refsingu fjandmönnum,
út til eyjanna endurgeldur hann.
19Þá munu menn óttast nafn Drottins í vestri
og dýrð hans í austri
því að hann brýst fram eins og á í vexti
sem stormur frá Drottni knýr fram.
20En lausnarinn mun koma til Síonar,
til þeirra af niðjum Jakobs sem hverfa frá synd,
segir Drottinn.
21Þetta er sáttmáli minn við þá, segir Drottinn:
Andi minn, sem er yfir þér,
orð mín, sem ég lagði þér í munn,
skulu hvorki víkja úr þínum munni
né munni niðja þinna,
né frá munni niðja niðja þinna, segir Drottinn,
héðan í frá og að eilífu.