Skipting landsins austan Jórdanar

1 Niðjar Rúbens og Gaðs áttu mjög margt búfjár. Þegar þeir sáu land Jasers og Gíleaðs virtist þeim landið vel fallið til búfjárræktar. 2 Niðjar Gaðs og Rúbens fóru því til Móse, Eleasars prests og höfðingja safnaðarins og sögðu: 3 „Atarót, Díbon, Jaser, Nimra, Hesbon, Eleale, Sebam, Nebó og Beón, 4 landið, sem Drottinn vann frammi fyrir söfnuði Ísraels, er gott búfjárland og þjónar þínir eiga búfé.“ 5 Enn fremur sögðu þeir: „Ef við höfum fundið náð í augum þínum ætti að gefa þjónum þínum þetta land. Farðu ekki með okkur yfir Jórdan.“
6 Móse sagði við niðja Gaðs og Rúbens: „Eiga bræður ykkar að fara og berjast en þið að búa hér í næði? 7 Hvers vegna viljið þið letja Ísraelsmenn að fara inn í landið sem Drottinn hefur gefið þeim? 8 Feður ykkar fóru eins að þegar ég sendi þá frá Kades Barnea til þess að skoða landið. 9 Þá fóru þeir upp í Eskóldal og skoðuðu landið, síðan löttu þeir Ísraelsmenn svo að þeir fóru ekki inn í landið sem Drottinn hafði gefið þeim. 10 Þá blossaði reiði Drottins upp og hann vann eið og sagði: 11 Þeir sem fóru frá Egyptalandi og eru tuttugu ára og eldri skulu alls ekki fá að sjá landið sem ég hét Abraham, Ísak og Jakobi því að þeir hafa ekki fylgt mér heils hugar 12 nema Kaleb Jefúnneson Kenisíti og Jósúa Núnsson því að þeir fylgdu Drottni í einu og öllu. 13 Reiði Drottins blossaði upp gegn Ísrael og hann lét þá reika um eyðimörkina í fjörutíu ár þar til öll sú kynslóð, sem gert hafði það sem illt er í augum Drottins, var liðin undir lok. 14 Nú standið þið í sporum feðra ykkar, þið afsprengi syndara, og aukið enn brennandi heift Drottins gegn Ísrael. 15 Ef þið hverfið frá honum mun hann láta þjóðina verða enn lengur í eyðimörkinni. Þið leiðið alla þjóðina í glötun.“
16 En þeir gengu þá nær honum og sögðu: „Við ætlum að reisa hér réttir fyrir búfé okkar og borgir fyrir börn okkar. 17 En sjálfir munum við vígbúast og fara fyrir Ísraelsmönnum þar til við höfum leitt þá á sinn stað. Börn okkar verða að búa í víggirtum borgum vegna íbúa landsins. 18 Við snúum ekki aftur heim fyrr en sérhver Ísraelsmaður hefur tekið við erfðalandi sínu. 19 En við munum ekki taka neitt erfðaland með þeim handan við Jórdan eða lengra burt því að við fáum erfðaland okkar hérna megin við Jórdan, að austanverðu.“
20 Móse svaraði þeim: „Ef þið standið við þetta loforð, ef þið búist til orrustu fyrir augliti Drottins 21 og sérhver vígbúinn maður meðal ykkar fer yfir Jórdan fyrir augliti Drottins og berst þar til hann hefur hrakið burt fjandmenn hans 22 og landið hefur verið lagt undir Drottin, þá megið þið snúa aftur. Þá verðið þið lausir við frekari skuldbindingar gagnvart Drottni og Ísrael og þetta land verður eign ykkar fyrir augliti Drottins. 23 En ef þið gerið þetta ekki hafið þið syndgað gegn Drottni og þið munuð komast að raun um að synd ykkar kemur ykkur í koll. 24 Reisið nú borgir handa börnum ykkar og réttir fyrir sauðfé ykkar og gerið það sem þið hafið sagt.“
25 Niðjar Gaðs og Rúbens ávörpuðu Móse og sögðu: „Þjónar þínir munu gera það sem þú býður, herra. 26 Börn okkar, konur, fénaður og allur bústofn verður eftir í borgunum í Gíleað 27 en þjónar þínir munu fara yfir Jórdan í stríð, allir búnir til herþjónustu fyrir augliti Drottins eins og þú býður, herra.“
28 Móse gaf Eleasar presti, Jósúa Núnssyni og ættarhöfðingjum Ísraelsmanna fyrirmæli um þá 29 og Móse sagði við þá: „Ef niðjar Gaðs og Rúbens fara yfir Jórdan með ykkur í stríð, allir vígbúnir fyrir augliti Drottins og landið verður lagt undir ykkur, þá skuluð þið gefa þeim þetta land til eignar. 30 En ef þeir fara ekki vígbúnir með ykkur yfir ána skulu þeir fá jarðeignir á meðal ykkar í Kanaanslandi.“
31 Niðjar Gaðs og Rúbens svöruðu og sögðu: „Við munum gera það sem Drottinn hefur sagt við þjóna þína. 32 Við munum fara vígbúnir yfir ána, inn í Kanaansland fyrir augliti Drottins en erfðahlutur okkar, jarðeignin, er hérna megin við Jórdan.“
33 Þá fékk Móse þeim niðjum Gaðs og Rúbens ásamt hálfum ættbálki Manasse, sonar Jósefs, ríki Síhons, Amorítakonungs, og ríki Ógs, Basanskonungs, landið og borgir þess og landsvæðið sem heyrði til borgunum. 34 Niðjar Gaðs endurreistu Díbon, Atarót, Aróer, 35 Aterót Sófan, Jaser, Jogbeha, 36 Bet Nimra og Bet Haran og byggðu réttir fyrir sauðfé. 37 Niðjar Rúbens endurreistu Hesbon, Eleale, Kirjataím, 38 Nebó og Baal Meon, en breyttu nöfnum þeirra, einnig Síbma. Þeir gáfu borgunum, sem þeir endurreistu, ný nöfn.
39 Niðjar Makírs, sonar Manasse, fóru til Gíleaðs, lögðu það undir sig og hröktu burt Amorítana sem bjuggu þar. 40 Þá fékk Móse Makír Manassesyni Gíleað og hann settist þar að. 41 En Jaír, sonur Manasse, kom og lagði undir sig búðir þeirra og gaf þeim nafnið Tjaldborg Jaírs. 42 Nóba kom einnig og lagði undir sig Kenat og borgirnar sem henni heyrðu til. Hann gaf henni sitt eigið nafn og nefndi hana Nóba.