Sáttmálinn rofinn

1Ef maður rekur konu sína frá sér og hún fer
og verður eiginkona annars manns,
getur hún þá snúið til hans aftur?
Mundi þetta land ekki vanhelgast af því?
Og þú sem hefur hórast með mörgum friðlum,
ættir þú að geta snúið aftur til mín? segir Drottinn.
2Líttu til gróðurvana hæðanna,
gættu að: Hvar hefur þú ekki verið svívirt?
Þú sast við veginn og beiðst friðla eins og Arabi í eyðimörkinni.
Þú vanhelgaðir landið með hórdómi þínum og illsku
3svo að rigningu var haldið aftur
og ekkert vorregn féll.
En þú varst ófyrirleitin á svip eins og skækja
og vildir ekki skammast þín.
4Eigi að síður hefur þú hrópað til mín:
„Faðir minn, unnusti æsku minnar.
5Verður hann ævinlega reiður,
verður hann ávallt gramur?“
Þannig talar þú en breytir illa og það getur þú.

Ótrúmennska Ísraels og Júda

6 Á dögum Jósía konungs sagði Drottinn við mig: Hefur þú séð hvað hin ótrúa Ísrael hefur gert? Hún fór upp á hvern háan hól og undir hvert grænt tré og drýgði þar hór. 7 Þá hugsaði ég: Þegar hún hefur gert allt þetta kemur hún aftur til mín. En hún kom ekki aftur og það sá Júda, hin svikula systir hennar.
8 Hún sá einnig að ég sendi Ísrael, hina ótrúu, í burt og fékk henni skilnaðarbréf vegna hjúskaparbrots hennar. En hin svikula Júda, systir hennar, varð ekki hrædd heldur tók einnig að drýgja hór. 9 Með léttúðarfullu lauslæti sínu vanhelgaði hún landið og drýgði hór með stokkum og steinum. 10 En þrátt fyrir allt þetta sneri Júda, hin svikula systir hennar, sér aldrei heils hugar til mín heldur aðeins af hræsni, segir Drottinn.
11 Drottinn sagði enn fremur við mig: Hin ótrúa Ísrael er réttlátari en hin svikula Júda.
12 Farðu, hrópaðu þessi orð í norður:
Hverf aftur, þú ótrúa Ísrael, segir Drottinn.
Ég mun ekki líta til þín í reiði
því að ég er miskunnsamur, segir Drottinn.
Ég er ekki ævinlega reiður.
13viðurkenndu aðeins sekt þína,
að þú hafir rofið trúnað við Drottin, Guð þinn.
Þú lagðir lag þitt við framandi guði,
undir hverju grænu tré,
en rödd minni hlýdduð þér ekki, segir Drottinn.

Fyrirheit um heimför

14 Snúið aftur, svikulu synir, segir Drottinn, því að það er ég sem ríki[ yfir yður. Ég sæki yður, einn úr hverri borg, tvo úr hverri ætt og flyt yður til Síonar.
15 Ég mun fá yður hirða sem eru mér að skapi og þeir munu gæta yðar[ með skynsemi og hyggindum. 16 Þegar yður fjölgar og þér verðið frjósamir í landinu, segir Drottinn, verður ekki lengur talað um sáttmálsörk Drottins. Hún mun ekki koma neinum í hug, enginn mun minnast hennar, enginn sakna hennar og engin önnur verður gerð.
17 Á þeim tíma verður Jerúsalem nefnd „hásæti Drottins“ og allar þjóðir munu safnast saman vegna nafns Drottins í Jerúsalem og ekki framar fylgja þrjósku síns vonda hjarta. 18 Á þeim dögum munu Júdamenn sameinast Ísraelsmönnum og þeir munu koma sameinaðir frá landinu í norðri til landsins sem ég fékk feðrum yðar að erfðahlut.

Hjáguðadýrkun lýðs Guðs

19Ég hef sjálfur sagt:
Ég fæ þér stað á meðal sonanna
og gef þér unaðslegt land,
hina dýrlegustu arfleifð meðal þjóðanna.
Ég sagði: Kallaðu mig föður
og snúðu ekki baki við mér.
20En eins og kona verður ótrú,
þannig urðuð þér, Ísraelsmenn, mér ótrúir,
segir Drottinn.
21Hlustið. Á gróðurvana hæðunum heyrist grátur,
kveinstafir og harmatölur Ísraelsmanna
því að þeir hafa villst af leið
og gleymt Drottni, Guði sínum.
22 Snúið aftur, svikulu synir,
ég mun lækna sviksemi yðar.
Hér erum vér, vér komum til þín
því að þú ert Drottinn, Guð vor.
23 Sannarlega er það blekking sem heyrist á hæðunum,
hávaðinn frá fjöllunum,
sannarlega er hjálp Ísraels
hjá Drottni, Guði vorum.
24 En svívirðingin hefur gleypt auð feðra vorra,
allt frá æskudögum vorum,
sauði þeirra og nautpening,
syni þeirra og dætur.
25 Vér skulum leggjast niður í smán,
skömmin hylur oss,
því að vér höfum syndgað gegn Drottni, Guði vorum,
vér og feður vorir,
allt frá æskudögum vorum og fram á þennan dag
höfum vér ekki hlýtt boði Drottins, Guðs vors.