1Vínhneigður verkamaður efnast ekki,
sá sem lætur sér fátt um smátt verður örsnauður.
2 Vín og víf leiða skynsama afvega,
sá sem leggur lag sitt við skækjur forherðist æ meir.
3 Hann verður rotnun og möðkum að bráð,
hinn forherti mun farast.
4 Óvitur er auðtrúa maður,
sá sem syndgar bakar sjálfum sér tjón.
5 Meinfýsinn maður mun sjálfur hljóta dóm.
Sá sem stenst nautnir kórónar líf sitt
og sá sem stýrir tungu sinni fær að lifa í friði. [

Um lausmælgi

6Sá er illu firrtur sem hatar lausmælgi.
7 Hafðu aldrei neitt eftir öðrum,
á því munt þú aldrei tapa.
8 Berðu ekkert út, hvorki um vin né óvin,
segðu ei frá neinu nema synd sé að þegja.
9 Ella mun sá er til þín heyrir varast þig,
fella á þig hatur fyrr eða síðar.
10 Berist þér kvittur hafðu hann með þér í gröfina,
kvíddu engu, það sprengir þig ekki.
11 Heimskinginn fær hríðir ef hann heyrir orðróm,
jóðsótt líkt og kona við barnsburð.
12 Eins og ör í lend manns,
svo er slúður sem heimskingi elur á.
13 Inn vin þinn eftir hvort hann hafi gert það,
ef svo, lát hann eigi gera það aftur.
14 Spyr granna þinn út í hvort hann hafi sagt það,
hafi hann sagt það, leyf honum eigi að endurtaka það.
15 Inn vin þinn eftir, því að oft kviknar óhróður,
eigi skaltu öllu trúa sem talað er.
16 Títt hrata vanhugsuð orð af vörum,
hver er sá sem ei hefur syndgað í orði?
17 Spyr nágranna þinn grannt áður en þú álasar honum,
lát lögmál Hins hæsta gilda án þess að reiðast.
18 Guðsótti er upphaf þess að verða Guði þekkur
og spekin veitir hlutdeild í kærleika hans.
19 Að kunna boðorð Guðs er ögun sem veitir líf,
þeir sem iðka það sem honum þóknast
munu njóta ávaxta af lífsins tré. [

Sönn speki og fölsk

20Öll speki felst í að óttast Drottin,
öll speki hlýtur að uppfylla lögmálið
og það er að þekkja almætti hans.
21 Ef þjónn segir við húsbónda sinn:
„Ég vil ekki gera eins og þú óskar,“
en framkvæmir það samt síðar
ergir hann þann sem fæðir hann. [
22 Þekking á illsku er engin speki,
ráð syndara eru ekki hyggindi.
23 Til eru þau hyggindi sem vekja viðbjóð,
til eru fávísir sem brestur speki.
24 Betri er guðhræddur og greindarlítill
en ljóngáfaður sem lögmálið brýtur.
25 Til er skörp ráðsnilld sem ranglát er
og margir beita brögðum er dóm skal fella.
26 Svo er illmennið sem ber yfirbragð mæðu,
en innra er það fullt svika.
27 Niðurlútur er hann og læst ekkert heyra,
hann ræðst að þér þegar minnst varir.
28 Hindri hann magnleysi frá því að syndga
mun hann þó skaða þig fái hann færi.
29 Af útliti má manninn þekkja,
hygginn má kenna af framkomu sinni.
30 Klæðnaður manns, göngulag og hlátur
gefa til kynna hvern mann hann geymir.