Framför í helgun

1 Að endingu bið ég ykkur, bræður og systur,[ og hvet ykkur í Drottni Jesú til að breyta eins og þið hafið numið af mér og þóknast Guði eins og þið reyndar gerið. En takið enn meiri framförum. 2 Þið vitið hvaða fyrirmæli ég gaf ykkur frá Drottni Jesú. 3 Það er vilji Guðs að þið verðið heilög. Hann vill að þið haldið ykkur frá óskírlífi, 4 að sérhvert ykkar temji sér að halda líkama sínum í helgun og heiðri[ 5 en ekki í losta eins og heiðingjarnir er ekki þekkja Guð. 6 Og enginn skyldi ganga á hlut eða blekkja nokkurn bróður eða systur[ í slíkum sökum. Því að Drottinn hegnir fyrir allt þvílíkt eins og ég hef áður sagt ykkur og varað ykkur við. 7 Ekki kallaði Guð okkur til saurlifnaðar heldur helgunar. 8 Sá sem lítilsvirðir þetta lítilsvirðir þess vegna ekki mann heldur Guð sem gefur ykkur sinn heilaga anda.
9 Um bróðurkærleikann þarf ég ekki að skrifa ykkur því Guð hefur sjálfur kennt ykkur að elska hvert annað. 10 Og þið auðsýnið líka öllum trúsystkinum[ í allri Makedóníu sama kærleika. En ég hvet ykkur, systkin,[ að taka enn meiri framförum. 11 Leggið metnað ykkar við að lifa kyrrlátu lífi og stunda hvert sitt starf og vinna með höndum ykkar eins og ég hef boðið ykkur. 12 Þannig hegðið þið ykkur á viðeigandi hátt gagnvart þeim sem fyrir utan eru og eruð upp á engan komin.

Endurkoma Drottins

13 Ekki vil ég, systkin,[ láta ykkur vera ókunnugt um þau sem sofnuð eru, til þess að þið séuð ekki hrygg eins og hin sem ekki eiga von. 14 Því að ef við trúum því að Jesús sé dáinn og upprisinn, þá mun Guð fyrir Jesú leiða ásamt honum fram þau sem sofnuð eru.
15 Því að það segi ég ykkur, og það er orð Drottins, að við, sem verðum eftir á lífi við komu Drottins, munum alls ekki fyrri verða en þau sem sofnuð eru. 16 Þegar Guð skipar fyrir, þegar raust erkiengilsins kveður við og básúna Guðs hljómar, mun sjálfur Drottinn stíga niður af himni og þau sem dóu í trú á Krist munu fyrst upp rísa. 17 Þá munum við sem eftir lifum verða hrifin burt ásamt þeim í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum við vera með Drottni alla tíma. 18 Uppörvið því hvert annað með þessum orðum.