1Hví stendur þú fjarri, Drottinn,
hví felur þú þig á neyðartímum?
2Hinn óguðlegi ofsækir þá snauðu með hroka,
fangar þá með ráðum sem hann hefur bruggað.
3Hinn óguðlegi gleðst í græðgi sinni,
blessar gróða sinn og lítilsvirðir Drottin.
4Hann hugsar dramblátur:
„Guð spyr einskis, enginn Guð er til.“
Þannig hugsar hann,
5honum lánast allt það sem hann færist í fang.
Dómar þínir fara hátt yfir höfði hans,
hann forsmáir alla andstæðinga sína.
6Hann hugsar með sjálfum sér: „Mér skrikar ekki fótur,
aldrei mun ógæfa henda mig.“
7Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi,
á tungu hans er illska og ranglæti.
8Hann liggur í launsátri í þorpunum,
myrðir saklausa í leynum,
augu hans skima eftir bágstöddum.
9Hann leynist sem ljón í runna,
situr um að hremma hinn snauða,
grípa hinn fátæka og fanga hann í net sitt.
10Hann hniprar sig saman, býst til stökks,
og hinn snauði fellur fyrir ofurefli hans.
11Hann hugsar með sér: „Guð hefur gleymt þessu,
hann hefur hulið auglit sitt, hefur ekkert séð.“
12Rís upp, Drottinn Guð, lyft hendi þinni.
Gleym eigi kúguðum.
13Hvers vegna sýnir hinn guðlausi Guði fyrirlitningu,
hvers vegna hugsar hann: „Þú krefur mig einskis?“
14Þú gefur gaum að mæðu og böli
og tekur það í hönd þér.
Hinn bágstaddi felur þér málefni sitt,
þér, sem hjálpar munaðarlausum.
15Brjót þú armlegg hins óguðlega og illvirkjans,
lát hann svara fyrir guðleysi sitt
svo að þess sjái ekki framar stað.
16Drottinn er konungur um aldur og ævi,
heiðingjum er eytt úr landi hans.
17Þú hefur heyrt óskir volaðra, Drottinn,
þú eykur þeim þor og hneigir eyra þitt að þeim,
18lætur munaðarlausa og kúgaða ná rétti sínum.
Enginn maður á jörðu beiti framar ofbeldi.