Þriðja bók

1 Asafssálmur.
Vissulega er Guð góður við Ísrael,
við þá sem hjartahreinir eru.
2En við lá að mér skrikaði fótur,
litlu munaði að ég hrasaði
3þar sem ég öfundaði oflátungana
þegar ég sá velgengni hinna guðlausu.
4Þeir líða engar kvalir,
eru líkamlega hraustir og vel á sig komnir,
5þeir hafa ekki áhyggjur eins og annað fólk,
verða ekki fyrir áföllum eins og aðrir menn.
6Hrokinn er því hálsmen þeirra,
þeir eru sveipaðir ofríki eins og skikkju.
7Frá mörhjarta kemur misgjörð þeirra, [
hugur þeirra er þrunginn illum áformum.
8Þeir spotta og lasta,
af yfirlæti hóta þeir kúgun,
9þeir gapa upp í himininn
og tungan veður yfir jörðina.
10Því snýr fólk sér til þeirra
og drekkur í sig orð þeirra.
11Þeir segja: „Hvað ætli Guð taki eftir þessu?
Veit Hinn hæsti nokkuð?“
12Sjá, þannig eru þeir guðlausu,
ætíð áhyggjulausir og safna auðæfum.
13Til einskis hef ég haldið hjarta mínu hreinu
og þvegið hendur mínar í sakleysi.
14Ég þjáist allan daginn
og á hverjum morgni bíður mín hirting.
15Hefði ég hugsað: „Ég vil tala eins og þeir,“
hefði ég brugðist börnum þínum.
16En ég velti þessu fyrir mér til að skilja það
og það reyndist mér hugarkvöl
17uns ég kom inn í helgidóma Guðs
og skildi afdrif þeirra.
18Já, þú setur þá á hála jörð
og fellir þá til jarðar.
19Hve skjótt verða þeir að engu,
hverfa, hljóta skelfilegan dauðdaga
20líkt og draumur hverfur fyrir vöku,
mynd sem er gleymd við fótaferð.
21Þegar beiskja var í hjarta mínu
og kvölin nísti hug minn
22 var ég fáráður og vissi ekkert,
eins og skynlaus skepna frammi fyrir þér.
23 En ég er ætíð hjá þér,
þú heldur í hægri hönd mína,
24 þú leiðir mig eftir ályktun þinni
og síðan munt þú taka við mér í dýrð.
25 Hvern á ég annars að á himnum?
Og hafi ég þig hirði ég eigi um neitt á jörðu.
26 Þótt hold mitt og hjarta tærist
er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.
27 Því sjá, þeir farast sem fjarlægjast þig,
þú afmáir alla sem eru þér ótrúir.
28 En mín gæði eru það að vera nálægt Guði,
ég gerði Drottin að athvarfi mínu
og segi frá öllum verkum þínum.