Páskahátíð Jósía

1 Jósía hélt Drottni páska í Jerúsalem og var páskalambinu slátrað á fjórtánda degi fyrsta mánaðarins. 2 Hann lét prestana koma til þjónustu sinnar og hvatti þá til starfa í húsi Drottins. 3 Levítunum, sem fræddu alla Ísraelsmenn og voru helgaðir Drottni, gaf hann þessi fyrirmæli: „Setjið hina heilögu örk inn í húsið sem Salómon, sonur Davíðs, konungur Ísraels, reisti. Þið þurfið ekki lengur að bera hana á öxlunum. Þjónið nú Drottni og lýð hans, Ísrael. 4 Undirbúið ykkur, hver fjölskylda fyrir sig og þjónustuflokkar, samkvæmt ákvörðun Davíðs Ísraelskonungs og fyrirmælum Salómons, sonar hans. 5 Takið ykkur stöðu í helgidóminum eftir ættflokkum fjölskyldna ykkar, leikmannanna, og ein sveit af Levítaættum skal svara til hvers flokks. 6 Slátrið þá páskalambinu og helgið ykkur. Tilreiðið það fyrir ættbræður ykkar svo að þeir geti framfylgt fyrirmælum Drottins sem hann gaf fyrir munn Móse.“
7 Jósía lagði til fénað, lömb og kiðlinga handa leikmönnunum. Var það allt haft til páskafórnanna fyrir þá sem voru viðstaddir. Voru þetta þrjátíu þúsund fjár og þrjú þúsund naut að auki, allt úr einkaeign konungs. 8 Embættismenn hans lögðu einnig fram það sem þeir vildu handa almenningi, prestum og Levítum. Hilkía, Sakaría og Jehíel, höfðingjar húss Guðs, gáfu prestunum tvö þúsund og sex hundruð fjár til páskafórna og þrjú hundruð naut. 9 Kananja og bræður hans, Semaja og Netaneel, einnig Hasakja, Jeíel og Jósabad, höfðingjar Levítanna, lögðu Levítunum til fimm þúsund fjár til páskafórna og fimm hundruð naut.
10 Þegar guðsþjónustan hafði þannig verið undirbúin tóku prestarnir sér stöðu á sínum stað. Levítarnir tóku sér stöðu eftir þjónustuflokkum sínum samkvæmt skipun konungs 11 og slátruðu páskalambinu. Prestarnir dreyptu blóðinu sem Levítarnir réttu þeim. Því næst fláðu Levítarnir fórnardýrin. 12 Þeir lögðu það sem ætlað var til brennifórnar til hliðar og fengu fjölskyldum leikmannanna svo að þær gætu fært það Drottni að fórn samkvæmt því sem skrifað er í bók Móse. Eins fóru þeir að með nautin. 13 Þá steiktu þeir páskalambið við eld samkvæmt fyrirmælunum. Hins vegar suðu þeir helgigjafirnar í pottum, kötlum og skálum og hlupu með þær til leikmannanna. 14 Eftir það matbjuggu þeir fyrir sig og prestana. Þar sem prestarnir, niðjar Arons, voru að brenna brennifórnirnar og fitustykkin fram á nótt matbjuggu Levítarnir fyrir sjálfa sig og prestana, niðja Arons.
15 Söngvararnir, niðjar Asafs, stóðu á sínum stað samkvæmt ákvörðun Davíðs og sjáenda konungsins, Asafs, Hemans og Jedútúns.
16 Þannig var öll þjónusta við Drottin skipulögð þennan dag: Páskahátíðin var haldin og brennifórnir færðar á altari Drottins samkvæmt skipun Jósía konungs. 17 Þeir Ísraelsmenn, sem voru viðstaddir, héldu nú páskahátíð. Þeir héldu einnig hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga. 18 Slíkir páskar höfðu ekki verið haldnir í Ísrael síðan á dögum Samúels spámanns. Enginn af konungum Ísraels hafði haldið páskahátíð eins og þá sem Jósía hélt ásamt prestunum, Levítunum og öllum íbúum Júda og Jerúsalem og þeim Ísraelsmönnum sem voru nærstaddir. 19 Þessir páskar voru haldnir á átjánda stjórnarári Jósía.

Jósía deyr

20 Þegar Jósía hafði lokið öllum viðgerðum á húsi Drottins hélt Nekó, konungur Egyptalands, með her sinn til þess að berjast hjá Karkemis við Efratfljót. Jósía fór gegn honum 21 og Nekó sendi boðbera til hans sem sögðu: „Konungur Júda, hvað eigum við sökótt hvor við annan? Í dag held ég ekki gegn þér heldur þeirri konungsætt sem heyr stríð við mig. Guð hefur boðið mér að hafa hraðan á. Hættu því sjálfs þín vegna að kljást við guð sem stendur með mér. Steyptu ekki sjálfum þér í glötun.“
22 En Jósía hopaði hvergi. Hann var ákveðinn í að berjast gegn honum og hlustaði ekki á skilaboð Nekós sem komu þó úr munni Guðs. Hann fór því til að berjast gegn honum á sléttunni við Megiddó. 23 Þá hæfðu bogaskytturnar Jósía konung sem sagði við þjóna sína: „Farið með mig héðan því að ég er mikið særður.“ 24 Þjónar hans lyftu honum úr stríðsvagninum og lögðu hann í hinn vagninn sem hann hafði með sér. Þegar þeir höfðu flutt hann til Jerúsalem dó hann og var grafinn í gröfum forfeðra sinna. Allir Júdamenn og Jerúsalembúar hörmuðu Jósía 25 og Jeremía orti harmljóð eftir hann. Allir söngvarar og söngkonur minnast Jósía í harmljóðum sínum, allt til þessa dags. Þeir hafa gert það að viðtekinni venju í Ísrael enda eru þau skráð í harmljóðunum.
26 Það sem óskráð er af sögu Jósía og verkum hans sem vitnuðu um trú hans samkvæmt því sem skráð er í lögbók Drottins, 27 saga hans frá upphafi til enda, er skráð í bók Ísraels- og Júdakonunga.