Jósúabók 16. kafli2017-12-30T21:00:35+00:00
Jósúabók 16. kafli

Landsvæði niðja Jósefs

1 Eftir hlutkesti kom í hlut niðja Jósefs land sem liggur frá Jórdan við Jeríkó austur að vatninu við Jeríkó, inn í eyðimörkina og upp í fjalllendið til Betel. 2 Frá Betel lágu landamærin til Lús og þaðan yfir til lands Arkíta við Atarót, 3 þaðan ofan í vesturátt að landi Jafletíta og að landi Neðra-Bet Hóron og allt til Geser og þaðan til hafs.
4 Manasse og Efraím, synir Jósefs, fengu einnig erfðahlut.

Hlutur niðja Efraíms

5 Landsvæði niðja Efraíms, hverrar ættar fyrir sig, var sem hér segir:
Landamæri erfðalands þeirra að austanverðu lágu frá Aterót Addar að Efra-Bet Hóron 6 og þaðan út til hafs. Frá Mikmetat í norðri sveigðu landamærin í austur til Taanat Síló og þaðan enn til austurs til Janóka. 7 Frá Janóka lágu landamærin ofan til Aterót og Naarat, síðan fast við Jeríkó og þaðan að Jórdan. 8 Frá Tappúa lágu landamærin í vestur að Kanagilinu og þaðan til hafs. Þetta var erfðaland niðja Efraíms, hverrar ættar fyrir sig. 9 Auk þess áttu þeir borgir sem aðgreindar voru fyrir þá í erfðalandi niðja Manasse, borgirnar sjálfar og þorpin sem heyrðu þeim til.
10 En Efraímítar gátu ekki hrakið Kanverjana sem bjuggu í Geser á brott. Þess vegna búa Kanverjar meðal Efraímsniðja allt til þessa dags og eru látnir vinna þrælkunarvinnu.

Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.