1Hvers vegna ákveður Hinn almáttki ekki tímann
og hví sjá ekki þeir daga hans sem þekkja hann?
2Menn færa landamerki úr stað,
ræna hjörðum og halda þeim til beitar,
3asna munaðarlausra reka þeir burt
og taka uxa ekkjunnar að veði,
4þeir hrekja fátæka af veginum
og umkomulausir í landinu fara í felur.
5Eins og villiasnar í eyðimörk
ganga þeir til starfa sinna,
þeir leita fæðu á gresjunni,
matar handa börnum sínum.
6Á sléttunni afla þeir fóðurs
og tína síðustu berin í víngarði hins óguðlega.
7Þeir eru naktir um nætur, klæðlausir,
og hafa enga ábreiðu í kuldanum,
8verða gegndrepa í fjallaskúrunum
og híma skjóllausir utan í klettunum.
9Þeir slíta föðurleysingja frá brjósti móður
og brjóstmylkinga umkomulausra taka þeir að veði.
10Þeir ganga naktir, án klæða,
og hungraðir bera þeir kornknippi.
11Milli ólífutrjánna pressa þeir olíu
og troða vínþróna kvaldir af þorsta.
12Deyjandi stynja í borginni,
særðir hrópa á hjálp
en Guð bænheyrir ekki.
13Til eru þeir sem rísa gegn ljósinu,
þeir skynja ekki leiðir þess
og fara ekki vegi þess.
14Morðinginn rís úr rekkju fyrir dagmál
og drepur umkomulausa og snauða.
Og að næturþeli læðist hann um sem þjófur.
15Auga hórkarlsins bíður rökkursins
og hann hugsar: „Ekkert auga sér mig,“
og hylur andlit sitt skýlu.
16Menn brjótast inn í hús í myrkri,
á daginn eru þeir í felum,
þeir þekkja ekki ljósið.
17Morgunninn er þeim öllum myrkur
þar sem þeir gerþekkja ógnir myrkursins.
18Þeir eru gárur á vatni,
bölvaður er hlutur þeirra í landinu
svo að enginn fer til víngarðanna.
19Þurrkur og hiti eyða leysingavatni,
undirheimar þeim sem hafa syndgað.
20Móðurkviður gleymir honum,
maðkur gæðir sér á honum,
hans verður aldrei minnst framar,
ranglætið var brotið niður eins og tré.
21Hann fór illa með óbyrju sem engin börn elur
og gerði ekkjunni ekkert gott.
22 En Guð sviptir valdsmönnum burt með afli sínu,
þeir rísa upp og enginn er óhultur um líf sitt.
23 Guð veitir þeim öryggi og þeir fá stuðning
og augu hans vaka yfir vegum þeirra.
24 Þeir eru hafnir til vegs eitt andartak, svo er öllu lokið,
þeir verða beygðir og skreppa saman eins og malurt,
visna eins og ax á kornstöng.
25 Og ef það er eigi svo, hver getur þá sannað að ég ljúgi
og gert orð mín að engu?