Mikilfengleikur Artaxerxesar og Mardokaí

1 Konungur skrifaði til allra héraða í ríki sínu til lands og sjávar. 2 Skrifað hefur verið um mátt hans og styrk, auð hans, veldi og vegsemd. Er það að finna í konungabók Persa og Meda. 3 Mardokaí gekk næstur Artaxerxesi konungi að tign og hafði mikil völd í ríkinu og naut mikillar hylli Gyðinga. Allir unnu þeir honum og greindi hann þjóðinni frá ferli sínum.

F

Mardokaí minnist draums síns

1 Mardokaí sagði: „Að tilhlutan Guðs er þetta orðið. 2 Ég minnist draumsýnarinnar sem mér birtist um atburði þessa. Öll atriði draumsins eru komin fram. 3 Lindin litla varð fljót og ljós varð og sól og mikill flaumur vatns. Fljótið er Ester sem konungurinn kvæntist og gerði að drottningu. 4 Drekarnir tveir erum við Haman. 5 Þeir sem söfnuðust saman til að afmá nafn Gyðinga eru heiðingjarnir. 6 En þjóð mín það eru Ísraelsmenn sem ákölluðu Guð og var bjargað. Drottinn frelsaði lýð sinn og hreif okkur úr öllum þessum hörmungum. Drottinn gerði tákn og mikil undur og engin þeim lík hafa orðið meðal heiðingjanna.
7 Af þessum sökum gerði hann tvo hluti, annan fyrir lýð Guðs og hinn handa heiðingjunum öllum. 8 Báðir þessir hlutir komu upp á settri stund og ollu dómsáfellingu allra heiðingja frammi fyrir Guði. 9 Guð minntist lýðs síns og lét arfleifð sína ná rétti sínum. 10 Þessir dagar í adarmánuði skulu haldnir hátíðlegir, sá fjórtándi og fimmtándi þess mánaðar. Þá skulu menn safnast fagnandi frammi fyrir Guði frá kyni til kyns um aldir alda hjá þjóð hans, Ísrael.“

Eftirmáli

11 Á fjórða stjórnarári Ptólemeusar konungs og Kleópötru kom Dósiteus, sem sagðist vera prestur og Levíti, og Ptólemeus sonur hans með ofanskráð bréf um púrím. Kváðu þeir bréfið vera ófalsað og þýtt af Lýsimakkusi Ptólemeussyni í Jerúsalem.