Rafael engill

1 Þegar brúðkaupsveislunni lauk kallaði Tóbít á Tóbías son sinn og sagði: „Drengur minn. Gættu þess að borga manninum, sem fylgdi þér, laun og greiddu honum uppbót á launin.“ 2 Hann svaraði: „Hversu mikið á ég að greiða honum, faðir? Ekki skaðast ég þótt hann fái helminginn af því sem við komum með hingað. 3 Hann kom mér heilum á húfi hingað heim, læknaði konu mína og sótti peningana með mér. Og hann læknaði þig einnig. Hvað á ég eiginlega að greiða honum auk launanna?“ 4 Tóbít svaraði: „Honum ber með réttu, drengur minn, að fá helming af öllu sem hann kom með hingað.“ 5 Síðan kallaði Tóbías á Rafael og sagði: „Taktu að launum helming alls sem þú komst með hingað og far þú heill.“
6 Rafael tók feðgana þá afsíðis og sagði: „Lofið Guð og segið öllum lifendum frá góðverkum hans við ykkur svo að þeir lofi hann og syngi nafni hans lofsöng. Það sæmir að kunngjöra öllum mönnum verk Guðs og dragið ekki að lofa hann. 7 Leyndarmál konungs er rétt að dylja en verk Guðs skal vegsama og opinbera. Gerið gott og þá mun ekkert illt henda ykkur. 8 Betra er að biðja í einlægni og vinna miskunnarverk en að afla auðs með rangindum. Betra er að gefa fátækum en að safna gulli í sjóð 9 því að miskunnarverk frelsa frá dauða og hreinsa af allri synd. Þeir sem gera góðverk uppskera lífið. 10 Þeir sem syndga og iðka ranglæti eru sjálfum sér verstir.
11 Ég ætla að leiða ykkur í allan sannleikann og ekki leyna ykkur neinu. Ég hef þegar sagt ykkur að það beri að dylja leyndarmál konungs en við hæfi sé að opinbera verk Guðs. 12 Þegar þið Sara báðust fyrir var það ég sem bar bænir ykkar fram fyrir dýrð Drottins og minnti hann á ykkur. Þannig var það einnig þegar þú jarðaðir látna. 13 Þegar þú svo stóðst hiklaust upp frá borðum, án þess að hafa etið, til þess að annast um látinn mann, 14 þá var ég sendur til að reyna þig. En Guð sendi mig um leið til að lækna þig og Söru tengdadóttur þína. 15 Ég er Rafael, einn englanna sjö sem standa til þjónustu reiðubúnir frammi fyrir dýrð Drottins.“
16 Feðgarnir urðu gripnir ótta og féllu skelfdir fram á ásjónu sína til jarðar. 17 „Verið óhræddir,“ sagði engillinn við þá. „Friður sé með ykkur. Lofið Guð um aldir alda. 18 Það var ekki mér að þakka að ég kom hingað. Það var að vilja Guðs. Lofið hann alla daga, syngið honum lofsöng. 19 Takið eftir því að ég neytti aldrei neins. Ykkur virtist aðeins svo vera. 20 Lofið Drottin meðan þið eruð á jörðu og þakkið Guði. Nú stíg ég upp til hans sem sendi mig. Skrifið allt niður sem henti ykkur.“ Og hann steig upp 21 og var horfinn þegar feðgarnir risu á fætur. 22 Þeir lofuðu Guð og þökkuðu honum og lofsungu hann fyrir þau máttarverk sem hann hafði gert þegar engillinn opinberaðist þeim.