Babýlon fellur. Heimför Ísraelsmanna

1 Orðið sem Drottinn flutti af munni Jeremía spámanns gegn Babýlon, landi Kaldea.
2Kunngjörið meðal þjóðanna og boðið það,
hefjið gunnfána og boðið,
þegið ekki um það en segið:
Babýlon er sigruð, Bel auðmýktur,
Mardúk skelfingu lostinn,
skurðgoð Babýlonar eru auðmýkt,
goð hennar skelfd.
3Því að þjóð úr norðri ræðst á Babýlon,
hún leggur landið í eyði
svo að enginn býr þar framar,
menn og skepnur flýja, hverfa á braut.
4Á þeim dögum og á þeim tíma, segir Drottinn,
munu Ísraelsmenn koma heim
og Júdamenn með þeim.
Grátandi munu þeir ganga
og leita Drottins, Guðs síns.
5Þeir spyrja til vegar til Síonar,
þangað stefna þeir:
Komið, vér skulum bindast Drottni
með ævarandi sáttmála sem aldrei gleymist.
6Þjóð mín var villuráfandi sauðahjörð,
hirðar hennar leiddu hana afvega í fjöllunum,
þeir reikuðu um fjöll og hæðir
og gleymdu hvíldarstað sínum.
7Allir sem rákust á sauðina átu þá
og fjandmenn þeirra sögðu:
Vér gerum ekkert rangt
því að þeir hafa syndgað gegn Drottni,
hinu rétta haglendi þeirra,
og gegn von feðra þeirra, Drottni.

Úrslitaorrustan

8Farið frá Babýlon og úr landi Kaldea
og verið sem forystusauðir fyrir hjörðinni.
9Því að ég stofna sjálfur bandalag mikilla þjóða
og leiði það gegn Babýlon,
frá landinu úr norðri.
Það fylkir sér gegn Babýlon
og úr norðri verður hún unnin.
Örvar þess eru sem giftusöm hetja
sem ekki snýr aftur án þess að hafa drýgt dáð.
10Land Kaldea verður herfang,
allir sem ræna það fá nægju sína,
segir Drottinn.
11Já, gleðjist og fagnið,
þér sem rænduð erfðahlut mínum.
Já, hoppið um eins og kvíga í haga,
hvíið eins og stóðhestar.
12Móðir yðar verður auðmýkt,
hún sem fæddi yður verður smánuð:
Já, hún er aumust allra þjóða,
eyðimörk, uppþornuð og skrælnuð.
13Hún verður óbyggð vegna heiftar Drottins,
hún verður að algjörri auðn.
Hvern sem á leið hjá Babýlon mun hrylla við,
hann mun hæðast að öllum áföllum hennar.
14Bogaskyttur, fylkið yður allar umhverfis Babýlon.
Skjótið á hana. Sparið ekki örvarnar
því að hún hefur syndgað gegn Drottni.
15Hrópið heróp gegn henni úr öllum áttum.
Hún hefur gefist upp. [
Súlur hennar hrynja,
múrarnir jafnaðir við jörðu.
Þetta er hefnd Drottins,
hefnið yðar á Babýlon,
farið með hana eins og hún fór með aðra.
16Upprætið sáðmenn úr Babýlon
og þá sem beita sigðinni um uppskerutímann.
Undan hinu eyðandi sverði
snýr hver og einn, snýr aftur til þjóðar sinnar,
sérhver flýr til síns lands.

17 Ísrael var sundruð sauðahjörð
sem ljón höfðu tvístrað. Fyrst át Assýríukonungur nokkuð af henni en að lokum nagaði Nebúkadresar, konungur í Babýlon, beinin.
18 Þess vegna segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels, svo: Ég mun draga konunginn og land hans til ábyrgðar eins og ég gerði Assýríukonung ábyrgan.
19 En ég leiði Ísrael aftur heim í haglendi sitt, hann verður á beit á Karmel og Basan, á fjöllum Efraíms og Gíleaðs mun hann seðja hungur sitt.
20 Á þeim dögum og á þeirri tíð, segir Drottinn, verður sektar Ísraels leitað án árangurs og synda Júda án þess að þær finnist því að ég mun fyrirgefa þeim sem ég skil eftir.

Fagnað yfir falli Babýlonar

21Sæktu fram gegn Marataím
og íbúunum í Pekod. [
Helgaðu þá banni með sverði,
segir Drottinn,
gerðu allt það sem ég hef boðið þér.
22 Vopnagnýr glymur í landinu,
algjör ósigur.
23 Er ekki kylfan moluð sem sló allan heiminn?
Hvílík hryggðarmynd er Babýlon orðin
meðal allra þjóða.
24 Þú lagðir snöru og festist í henni sjálf.
Áður en þú vissir af, Babýlon,
varstu gripin og tekin höndum
því að þú bauðst Drottni birginn.
25 Drottinn hefur opnað vopnabúr sitt
og sótt vopn heiftar sinnar
því að Drottinn, Guð hersveitanna,
hefur verk að vinna í landi Kaldea.
26 Sækið gegn henni úr öllum áttum,
opnið forðabúrin.
Hrúgið öllu saman eins og kornbing,
helgið það síðan banni,
ekkert má eftir verða.
27 Drepið alla uxana með sverði,
leiðið þá alla til slátrunar.
Vei þeim. Þeirra tími er kominn,
dagur uppgjörs.
28 Hlýðið á! Flóttamennirnir, sem hafa sloppið frá landi Babýlonar,
greina frá hefnd Drottins, Guðs vors, á Síon,
hefnd fyrir musteri hans.

Uppgjör við Babýlon

29 Kveðjið til bogaskyttur gegn Babýlon,
alla sem benda boga.
Setjist um hana á allar hliðar,
enginn skal komast undan.
Gjaldið Babýlon verk hennar,
farið með hana eins og hún fór með aðra.
Þar sem hún hreykti sér gegn Drottni,
gegn Hinum heilaga í Ísrael,
30 munu æskumenn hennar falla á torgum
og allir hermenn hennar bíða bana á þeim degi,
segir Drottinn.
31 Nú fer ég gegn þér, hrokagikkur,
segir Drottinn, Guð hersveitanna,
því að þinn tími er kominn,
dagur uppgjörs.
32 Hinn drambláti hrasar og dettur,
enginn hjálpar honum á fætur.
Ég kveiki í borgum hans,
eldurinn gleypir allt sem umhverfis hann er.

Ísrael bjargað

33 Svo segir Drottinn hersveitanna:
Ísraelsmenn eru kúgaðir
og Júdamenn einnig.
Allir þeir sem fluttu þá í útlegð
hafa þá í haldi,
vilja ekki láta þá lausa.
34 En endurlausnari þeirra er máttugur,
Drottinn hersveitanna er nafn hans.
Hann mun sjálfur reka réttar þeirra
þannig að hann færi heiminum hvíld
en íbúum Babýlonar ófrið.
35 Sverð gegn Kaldeum,
segir Drottinn,
gegn íbúum Babýlonar,
gegn höfðingjum hennar og vitringum.
36 Sverð kemur gegn spáprestunum
svo að þeir verði að glópum.
Sverð kemur gegn köppum Babýlonar
svo að þeir missi kjarkinn.
37 Sverð kemur gegn hestum hennar og vögnum,
gegn öllum þjóðunum sem í henni eru
svo að þær verði að konum.
Sverð kemur gegn fjársjóðum hennar
svo að þeim verði rænt.
38 Sverð kemur gegn vatni hennar
svo að það þorni.
Þar sem þetta er land skurðgoða
æra líkneskin þá.
39 Því munu eyðimerkurdýr og hýenur setjast þar að,
strútar munu búa í Babýlon.
Aldrei mun neinn setjast þar að framar,
þar mun enginn búa frá kyni til kyns.
40 Eins fer fyrir henni
og þegar Guð eyddi Sódómu og Gómorru
og nágrannaborgum hennar,
segir Drottinn.
Þar mun enginn maður búa
og enginn hafa þar viðdvöl.

Þjóð úr norðri

41 Þjóð kemur úr norðri,
mikil þjóð.
Voldugir konungar halda af stað
frá endimörkum jarðar.
42 Þeir eru vopnaðir bogum og bjúgsverðum,
þeir eru grimmir og miskunnarlausir.
Hávaðinn frá þeim líkist hafgný,
þeir koma ríðandi á hestum,
hver þeirra búinn til bardaga gegn þér, dóttirin Babýlon.
43 Þegar konungur Babýlonar heyrði fréttina
lömuðust hendur hans,
angist greip hann
og hann kvaldist eins og kona í barnsnauð.
44 Líkt og ljón, sem rís upp úr kjarrinu á bökkum Jórdanar
og stígur út á sígrænt engið,
mun ég flæma þá burt á augabragði
og velja mér bestu sauðina að bráð.
Því að hver er jafnoki minn?
Hver getur krafið mig reikningsskila?
Hvaða hirðir stenst frammi fyrir mér?
45 Heyrið því ákvörðun Drottins
sem hann hefur tekið um Babýlon,
ráðin sem hann hefur ráðið gegn landi Kaldea:
Jafnvel hinir minnstu úr hjörðinni verða dregnir burt,
sannarlega mun bithaga þeirra hrylla við örlögum þeirra.
46 Jörðin nötrar af hrópinu:
„Babýlon er unnin,“
og óp hennar heyrist til annarra þjóða.