1 En Páll hvessti augun á ráðið og mælti: „Góðir menn og bræður, ég hef þjónað Guði allt fram á þennan dag og hef að öllu leyti góða samvisku.“ 2 En Ananías æðsti prestur skipaði þeim er hjá stóðu að ljósta hann á munninn. 3 Þá sagði Páll við hann: „Guð mun ljósta þig, kalkaði veggur. Hér situr þú til að dæma mig samkvæmt lögmálinu og skipar þó þvert ofan í lögmálið að slá mig.“ 4 Þeir sem hjá stóðu sögðu: „Smánar þú æðsta prest Guðs?“
5 Páll svaraði: „Ekki vissi ég, bræður, að hann væri æðsti prestur því ritað er: Þú skalt ekki formæla höfðingja þjóðar þinnar.“
6 Nú vissi Páll að sumir þeirra voru saddúkear en aðrir farísear og hann hrópaði upp í ráðinu: „Bræður, ég er farísei, af faríseum kominn. Ég er lögsóttur fyrir vonina um upprisu dauðra.“
7 Þegar hann sagði þetta varð deila milli farísea og saddúkea og þingheimur skiptist í flokka, 8 því að saddúkear segja að ekki sé til upprisa, englar né andar en farísear játa allt þetta. 9 Nú varð hróp mikið og nokkrir fræðimenn af flokki farísea risu upp og fullyrtu: „Við sjáum ekki að þessi maður hafi brotið af sér. Gæti ekki hugsast að andi hafi talað við hann eða engill?“
10 Deilan harðnaði og hersveitarforinginn fór að óttast að þeir ætluðu að slíta Pál í sundur. Því skipaði hann herliðinu að koma ofan, taka hann af þeim og færa hann inn í kastalann.
11 Nóttina eftir kom Drottinn til hans og sagði: „Vertu hughraustur! Svo sem þú hefur vitnað um mig í Jerúsalem eins ber þér og að vitna í Róm.“

Gyðingar bindast samtökum

12 Þegar dagur rann bundust Gyðingar samtökum og sóru þess eið að eta hvorki né drekka fyrr en þeir hefðu ráðið Pál af dögum. 13 Voru þeir fleiri en fjörutíu sem þetta samsæri gerðu. 14 Þeir fóru til æðstu prestanna og öldunganna og sögðu: „Við höfum svarið þess dýran eið að neyta einskis fyrr en við höfum ráðið Pál af dögum. 15 Nú skuluð þið og ráðið leggja til við hersveitarforingjann að hann láti senda hann niður til ykkar svo sem vilduð þið kynna ykkur mál hans rækilegar. En við erum við því búnir að vega hann áður en hann kemst alla leið.“
16 En systursonur Páls heyrði um fyrirsátina. Hann gekk inn í kastalann og sagði Páli frá. 17 Páll kallaði til sín einn hundraðshöfðingjann og mælti: „Far þú með þennan unga mann til hersveitarforingjans því að hann hefur nokkuð að segja honum.“ 18 Hundraðshöfðinginn tók hann með sér, fór með hann til hersveitarforingjans og sagði: „Fanginn Páll kallaði mig til sín og bað mig að fara til þín með þennan unga mann. Hann hefur eitthvað að segja þér.“
19 Hersveitarforinginn tók í hönd honum, leiddi hann afsíðis og spurði: „Hvað er það sem þú hefur að segja mér?“
20 Hinn svaraði: „Gyðingar hafa komið sér saman um að biðja þig að senda Pál niður í ráðið á morgun þar eð þeir ætli að rannsaka mál hans rækilegar. 21 En lát þú ekki að vilja þeirra því að menn þeirra, fleiri en fjörutíu, sitja fyrir honum og hafa svarið þess eið að eta hvorki né drekka fyrr en þeir hafi vegið hann. Nú eru þeir viðbúnir og bíða eftir að svarið komi frá þér.“
22 Hersveitarforinginn lét piltinn fara og bauð honum: „Þú mátt engum segja að þú hafir gert mér viðvart um þetta.“

Páll sendur til Felix landstjóra

23 Hann kallaði fyrir sig tvo hundraðshöfðingja og sagði: „Látið tvö hundruð hermenn vera tilbúna að fara til Sesareu eftir náttmál, auk þess sjötíu riddara og tvö hundruð léttliða. 24 Hafið og til fararskjóta handa Páli svo að þið komið honum heilum til Felix landstjóra.“ 25 Og hann ritaði bréf, svohljóðandi:
26 „Kládíus Lýsías sendir kveðju hinum göfuga Felix landstjóra. 27 Mann þennan höfðu Gyðingar tekið höndum og voru í þann veginn að taka af lífi er ég kom að með hermönnum. Ég komst að því að hann er rómverskur og bjargaði honum. 28 En ég vildi vita fyrir hverja sök þeir ákærðu hann og fór með hann niður í ráð þeirra. 29 Komst ég þá að raun um að hann var kærður vegna ágreinings um lögmál þeirra en engin sök var honum gefin er sætir dauða eða fangelsi. 30 En þar sem ég hef fengið bendingu um að setið sé um líf mannsins sendi ég hann tafarlaust til þín. Ég hef jafnframt boðið ákærendum hans að flytja mál sitt gegn honum fyrir þér.“
31 Hermennirnir tóku þá Pál, eins og þeim var boðið, og fóru með hann að næturlagi til Antípatris. 32 Daginn eftir sneru þeir aftur til kastalans en létu riddarana fara með honum. 33 Þeir fóru inn í Sesareu, afhentu landstjóranum bréfið og færðu Pál fyrir hann. 34 Hann las bréfið og spurði úr hvaða skattlandi hann væri. Var honum tjáð að hann væri frá Kilikíu. 35 Þá mælti hann: „Ég mun rannsaka mál þitt þegar kærendur þínir koma.“ Og hann bauð að geyma hann í höll Heródesar.