Hinn lifandi steinn

1 Segið því skilið við alla vonsku og alla pretti, hræsni, öfund og allt baktal. 2 Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ómenguðu mjólk til þess að þið af henni getið dafnað til hjálpræðis 3 enda „hafið þið smakkað hvað Drottinn er góður“.
4 Komið til hans, hins lifanda steins, sem menn höfnuðu en er í augum Guðs útvalinn og dýrmætur. 5 Látið sjálf uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús til heilags prestdóms, til að bera fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði velþóknanlegar. 6 Því að svo stendur í Ritningunni:
Sjá, ég set hornstein í Síon,
valinn og dýrmætan.
Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar.
7Yður sem trúið er hann dýrmætur en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu,
orðinn að hyrningarsteini

8 og:
ásteytingarsteini og hrösunarhellu.
Þeir steyta sig á honum af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað.
9 En þið eruð „útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þið skuluð víðfrægja dáðir hans,“ sem kallaði ykkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. 10 Þið sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðin „Guðs lýður“. Þið sem „ekki nutuð miskunnar“ hafið nú „miskunn hlotið“.

Þjónar Guðs

11 Þið elskuðu, ég áminni ykkur sem gesti og útlendinga að halda ykkur frá holdlegum girndum sem heyja stríð gegn sálunni. 12 Hegðið ykkur vel meðal þjóðanna, til þess að þeir sem nú hallmæla ykkur sem illgjörðamönnum sjái góðverk ykkar og vegsami Guð þegar hann kemur.
13 Verið Drottins vegna hlýðin allri mannlegri skipan, bæði keisara, hinum æðsta, 14 og landshöfðingjum sem hann sendir til að refsa illgjörðamönnum og til að hrósa þeim er breyta vel. 15 Það er vilji Guðs að þið þaggið niður í vanþekkingu heimskra manna með því að breyta vel. 16 Þið eruð frjálsir menn. Notið frelsið til að þjóna Guði en ekki til að hylja vonsku. 17 Virðið alla menn, elskið samfélag þeirra sem trúa, óttist Guð, heiðrið keisarann.

Í fótspor Krists

18 Þjónar, hlýðið húsbændum ykkar og sýnið þeim alla lotningu, ekki einungis hinum góðu og sanngjörnu heldur einnig hinum ósanngjörnu. 19 Ef einhver verður fyrir ónotum og líður saklaus vegna meðvitundar um Guð þá er það þakkarvert. 20 Því að hvað er lofsvert við það að sýna þolgæði er þið sætið barsmíðum fyrir afbrot? En að þola illt með þolgæði og hafa þó breytt vel, það er mikilsvert í augum Guðs. 21 Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. 22 „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ 23 Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. 24 Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. 25 Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.