Engill Drottins boðar hegningu

1 Engill Drottins kom frá Gilgal til Bókím og mælti: „Ég leiddi ykkur út af Egyptalandi og færði ykkur í það land sem ég sór feðrum ykkar og ég sagði: Ég mun aldrei rjúfa sáttmála minn við ykkur 2 en þið megið ekki gera sáttmála við íbúa þessa lands, heldur skuluð þið rífa niður ölturu þeirra. En þið hafið ekki hlýtt rödd minni. Hvers vegna hafið þið gert þetta?
3 Því segi ég einnig: Ég mun ekki hrekja þá burt undan ykkur. Þeir munu verða broddar í síðum ykkar og guðir þeirra verða ykkur að tálsnöru.“
4 Er engill Drottins hafði mælt þessi orð til allra Ísraelsmanna hóf fólkið upp rödd sína og kveinaði. 5 Þeir nefndu stað þennan Bókím[ og færðu Drottni þar fórn.

Jósúa deyr

6 Síðan lét Jósúa fólkið frá sér fara og héldu Ísraelsmenn þá hver til síns óðals til þess að taka landið til eignar. 7 Og fólkið þjónaði Drottni meðan Jósúa var á lífi og meðan öldungar þeir, sem lifðu Jósúa, voru á lífi, þeir sem séð höfðu öll stórvirki Drottins sem hann vann fyrir Ísrael. 8 Þá andaðist Jósúa Núnsson, þjónn Drottins, hundrað og tíu ára. 9 Hann var grafinn í eignarlandi sínu hjá Timnat Heres á Efraímsfjöllum, fyrir norðan Gaasfjall. 10 En öll sú kynslóð safnaðist líka til feðra sinna og fram kom önnur kynslóð eftir hana sem hvorki þekkti Drottin né þau verk er hann hafði unnið fyrir Ísrael.

Ótryggð Ísraels

11 Þá gerðu Ísraelsmenn það sem illt var í augum Drottins, þjónuðu Baölum 12 og yfirgáfu Drottin, Guð feðra sinna, sem leitt hafði þá af Egyptalandi. Þeir eltu aðra guði, af guðum þjóða þeirra er bjuggu umhverfis þá, og féllu fram fyrir þeim og egndu Drottin til reiði. 13 Og þeir yfirgáfu Drottin og þjónuðu Baal og Astörtum. 14 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael og hann gaf þá á vald ránsmönnum sem rændu þá. Hann seldi þá óvinum þeirra í hendur allt í kringum þá svo að þeir fengu eigi framar staðist fyrir óvinum sínum. 15 Hvert sem þeir fóru var hönd Drottins gegn þeim til óhamingju eins og Drottinn hafði sagt og eins og Drottinn hafði svarið þeim. Komust þeir þá í miklar nauðir.
16 En Drottinn vakti upp dómara og þeir frelsuðu þá úr höndum þeirra sem rændu þá. 17 En þeir hlýddu ekki heldur dómurum sínum en tóku fram hjá með öðrum guðum og féllu fram fyrir þeim. Þeir viku brátt af vegi feðra sinna sem hlýtt höfðu boðum Drottins og breyttu ekki eins og þeir.
18 Þegar Drottinn vakti upp dómara handa þeim, þá var Drottinn með dómaranum og frelsaði þá úr höndum óvina þeirra á meðan dómarinn var á lífi því að Drottinn kenndi í brjósti um þá er þeir kveinuðu undan kúgurum sínum og kvölurum. 19 En þegar dómarinn andaðist breyttu þeir að nýju verr en feður þeirra með því að elta aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim. Þeir létu hvorki af þessum verkum sínum né þrjósku sinni.
20 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael og hann sagði: „Af því að þetta fólk hefur rofið sáttmálann, sem ég gerði við feður þess, og ekki hlýtt rödd minni 21 mun ég ekki framar stökkva burt undan því nokkrum manni af þeim þjóðum sem Jósúa skildi eftir er hann andaðist. 22 Ég vil nota þær til að reyna Ísraelsmenn, hvort þeir varðveita veg Drottins og ganga hann, eins og feður þeirra gerðu, eða ekki.“ 23 Þess vegna lét Drottinn þjóðir þessar vera kyrrar án þess að reka þær strax burt og hann gaf þær ekki á vald Jósúa.