Fréttir frá Jerúsalem

1 Frásögn Nehemía Hakalíasonar.
Svo bar við í kíslevmánuði, á tuttugasta stjórnarári Artaxerxesar konungs, þegar ég dvaldist í virkisborginni Súsa, 2 að Hananí, einn bræðra minna, kom frá Júda ásamt nokkrum fylgdarmönnum.
Ég spurði þá frétta af þeim Gyðingum sem komust undan og þeim sem eftir voru af þeim sem fluttir voru í útlegð. Ég spurði þá einnig um Jerúsalem. 3 Þeir svöruðu: „Þeir sem eftir eru af þeim sem fluttir voru í útlegð lifa í skattlandinu í mestu eymd og niðurlægingu. Borgarmúrar Jerúsalem hafa verið rofnir og borgarhliðin brennd í eldi.“
4 Þegar ég heyrði þessar fréttir settist ég niður og grét. Ég syrgði dögum saman, fastaði og bað frammi fyrir Guði himinsins.
5 Ég bað: „Drottinn, Guð himinsins. Þú mikli og ógnvekjandi Guð. Þú heldur sáttmálann og sýnir þeim miskunnsemi sem elska þig og halda boð þín. 6 Leggðu við hlustir og hafðu augun opin og hlýddu á bæn mína, þjóns þíns. Frammi fyrir þér bið ég dag og nótt fyrir Ísraelsmönnum, þjónum þínum. Ég játa synd Ísraelsmanna frammi fyrir þér: Vér höfum syndgað gegn þér, ég sjálfur og fjölskylda mín höfum einnig syndgað. 7 Vér höfum komið afar illa fram við þig, vér höfum hvorki fylgt boðum þínum, lögum né reglum sem þú fólst Móse, þjóni þínum. 8 Minnstu nú þeirra orða sem þú lagðir fyrir Móse, þjón þinn: Ef þið bregðist mér mun ég tvístra ykkur á meðal þjóðanna. 9 En ef þið snúið aftur til mín, varðveitið boðorð mín og breytið eftir þeim mun ég safna ykkur aftur saman, jafnvel þeim sem hraktir voru til endimarka himinsins, og flytja til þess staðar, sem ég hef valið, til þess að láta nafn mitt búa.
10 Það eru þjónar þínir og þjóð sem þú frelsaðir með miklum mætti þínum og styrkri hendi þinni. 11 Drottinn, leggðu við hlustir og hlýddu á bæn þjóns þíns og bæn þjóna þinna sem gleðjast yfir að sýna nafni þínu lotningu: Láttu nú þjóni þínum takast ætlunarverk sitt og gefðu að mér verði miskunnað frammi fyrir þessum manni.“
Ég var byrlari konungs.