Eyðandanum eytt

1Vei þér, eyðandi,
sem sjálfum hefur ekki verið eytt,
vei þér, svikari, sem enginn hefur svikið.
Þegar þú hefur lokið við að eyða
verður þér eytt
og þegar þú hættir að svíkja
verður þú sjálfur svikinn.
2Drottinn, ver oss náðugur, vér vonum á þig.
Ver þú styrkur vor á hverjum morgni
og hjálpræði vort á neyðarinnar tíma.
3Fyrir hinum dynjandi gný flýja þjóðirnar,
þegar þú ríst upp tvístrast lýðir.
4Þá verður herfang tekið
eins og af jarðvargi,
menn munu steypast yfir það
eins og engisprettusveimur.
5Hár er Drottinn
því að hann býr á hæðum,
hann fyllir Síon rétti og réttlæti.
6Örugga tíma skalt þú hljóta,
auð hjálpræðis, vísdóms og þekkingar.
Ótti Drottins er auður þinn.
7Hermenn hrópa á strætum,
friðarboðar gráta beisklega.
8Strætin eru auð,
enginn fer um göturnar.
Hann rauf sáttmálann,
hafnaði vitnum hans,
virðir engan neins.
9Jörðin skrælnar og visnar,
Líbanon blygðast sín og sýkist,
Saron er eins og eyðimörk,
Basan og Karmel fella laufið,
10Nú rís ég upp, segir Drottinn,
nú stend ég á fætur,
nú er ég hátt upp hafinn.
11Þér gangið með hey en fæðið hálm,
andgustur yðar er eldur sem gleypir yður sjálfa.
12Þá verða þjóðirnar brenndar til ösku,
höggnar eins og þyrnar
og brenndar í eldi.
13Þér, sem fjarlægir eruð, heyrið um verk mín,
þér, sem nálægir eruð, viðurkennið mátt minn.
14Syndararnir á Síon nötra,
skjálfti grípur guðlastara.
„Hver af oss getur leitað skjóls hjá eyðandi eldi,
hver af oss leitað skjóls í eilífum bruna?“
15Sá sem lifir í réttvísi og talar sannleika,
sá sem hafnar gróða sem fékkst með ofríki,
sem bandar hendi gegn mútum í stað þess að þiggja þær,
sem heldur fyrir eyrun til að heyra ekki ráðagerð um morð
og lokar augunum til að sjá ekkert illt,
16hann mun búa á hæðum.
Hamraborgir verða vígi hans.
Honum verður séð fyrir brauði
og hann mun aldrei skorta vatn.
17Með eigin augum muntu sjá konunginn í ljóma sínum
og sjá víðáttumikið land.
18Með sjálfum þér muntu hugleiða skelfinguna:
Hvar er sá sem telur?
Hvar er sá sem vó?
Hvar er sá sem telur turnana?
19Þú munt ekki framar sjá hina ofstopafullu þjóð
sem talar óljóst mál sem ekki skilst,
stamar á tungu sem enginn skilur.
20Líttu á Síon, borg hátíða vorra,
augu þín munu sjá Jerúsalem, friðsæl heimkynni, [
tjaldið sem ekki verður hróflað við,
hælum þess aldrei kippt upp
og ekkert af stögum þess slitið.
21En þar verður hinn voldugi Drottinn með oss,
þar sem fljót og breið vatnsföll renna
en engin borðróin skip fara um
og engin skrautleg skip sigla.
22 Því að Drottinn er dómari vor,
Drottinn er löggjafi vor,
Drottinn er konungur vor,
hann frelsar oss.
23 Stögin eru slök,
halda siglunni ekki í skorðum,
þenja ekki seglið.
Þá verður miklu herfangi skipt
og jafnvel lamaðir taka ránsfeng.
24 Enginn borgarbúi mun segja: „Ég er veikur.“
Syndir fólksins, sem þar býr,
hafa verið fyrirgefnar.