Nýtt musteri

1 Í ársbyrjun, tíunda dag mánaðarins á tuttugasta og fimmta árinu frá því að við vorum fluttir í útlegð, á fjórtánda ári eftir fall borgarinnar, einmitt þann dag kom hönd Drottins yfir mig og flutti mig 2 í guðdómlegum sýnum til lands Ísraels. Hann setti mig á mjög hátt fjall og sunnan megin á því var einhver byggð sem líktist borg. 3 Þangað fór hann með mig og þá sá ég mann sem var á að líta eins og hann væri úr eir. Hann hafði línþráð og mælikvarða í hendi og stóð í hliðinu. 4 Maðurinn sagði við mig: „Mannssonur, horfðu með augum þínum og hlustaðu með eyrum þínum. Taktu vel eftir öllu sem ég sýni þér því að þú varst fluttur hingað til þess að ég sýndi þér það. Skýrðu Ísraelsmönnum frá öllu sem þú sérð.“

Ytri forgarðurinn og hlið hans

5 Múrveggur var utan um musterið og náði alveg í kringum það. Maðurinn hafði mælistiku í hendi sér sem var sex álnir á lengd. Hver alin var venjuleg alin að viðbættri einni þverhönd. Hann mældi þykkt múrsins og reyndist hún vera ein mælistika og hæðin ein stika.
6 Hann gekk þá inn í hliðið, sem snýr í austur, og upp þrepin í því og mældi síðan þröskuldinn í hliðinu sem var ein mælistika á breidd. 7 Hann mældi einnig hliðarstúkur hliðsins sem reyndust ein mælistika á lengd og ein á breidd. Á milli stúknanna voru fimm álnir. Sá þröskuldur hliðsins sem sneri að forsal hliðsins að innanverðu var ein mælistika. 8 Síðan mældi hann forsal hliðsins 9 sem reyndist átta álnir og stoðirnar í honum tvær álnir. Forsalur hliðsins vissi að musterinu. 10 Í austurhliðinu voru þrjár stúkur hvorum megin. Stúkurnar voru allar jafnstórar og stoðirnar beggja vegna voru einnig jafnstórar. 11 Þá mældi hann einnig dyravídd hliðsins og var hún tíu álnir og vegurinn gegnum hliðið þrettán álnir. 12 Framan við stúkurnar var girðing, sem var ein alin, og stúkurnar báðum megin voru sex álnir. 13 Þá mældi hann breidd hliðsins frá bakvegg einnar stúku að bakvegg stúkunnar á móti og var hún tuttugu og fimm álnir. Dyrnar á stúkunum stóðust á. 14 Hann mældi einnig forsal hliðsins. Var hann tuttugu og fimm álnir og sex álnir við stoð forgarðsins. 15 Frá framhlið hliðbyggingarinnar með innganginum í hliðið og að þeirri hlið forsalarins sem sneri að musterinu voru fimmtíu álnir. 16 Á stúkunum og stoðum þeirra voru gluggar sem lokað var með grindum. Þeir opnuðust allt umhverfis inn í hliðið. Eins voru gluggar allt umhverfis inn í forsalinn og stoðir hans voru skreyttar pálmum.
17 Því næst leiddi hann mig inn í ytri forgarðinn. Þar voru herbergi og var allur forgarðurinn steinlagður. Þrjátíu herbergi vissu út að steingólfinu. 18 Steingólfið náði að hliðarvegg, jafnlangt honum. Þetta var neðra steingólfið. 19 Þá mældi hann einnig fjarlægðina frá framhlið neðra hliðsins að úthlið innra hliðsins, það voru hundrað álnir.
20 Hann mældi einnig lengd og breidd þess hliðs í ytri forgarðinum sem snýr í norður. 21 Í því voru þrjár hliðarstúkur hvorum megin, forsalur og stoðir sem voru jafnstórar og í hinu hliðinu. Hliðið var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm á breidd. 22 Gluggarnir á forsal þessa hliðs og pálmaskreytingin í honum voru eins og í austurhliðinu. Lágu sjö þrep upp að því. Forsalur þess sneri inn á við. 23 Gegnt norðurhliðinu og austurhliðinu var hlið inn í innri forgarðinn. Hann mældi fjarlægðina frá hliði til hliðs og var hún hundrað álnir.
24 Því næst leiddi hann mig í suður. Þar var hlið sem sneri í suður. Hann mældi stoðir þess og forsal sem voru jafnstór og í hinum hliðunum. 25 Á hliðinu voru gluggar og einnig allt í kring á forsal þess. Þeir voru eins og hinir fyrri. Hliðið var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm á breidd. 26 Sjö þrep lágu upp að hliðinu og forsalur þess sneri inn á við. Stoðir hliðsins voru skreyttar pálmum báðum megin. 27 Í innri forgarðinum var annað hlið sem sneri í suður. Hann mældi fjarlægðina milli hliðanna sem sneru í suður og var hún hundrað álnir.
28 Því næst fór hann með mig um suðurhliðið inn í innri forgarðinn. Hann mældi suðurhliðið og var það jafnstórt hinum hliðunum. 29 Hliðarstúkurnar í því, stoðirnar og forsalurinn voru af sömu stærð og í hinum hliðunum. Á hliðinu og forsal þess voru gluggar allt í kring. Það var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm á breidd. 30 Og allt í kring voru forsalir, tuttugu og fimm álna langir og fimm álna breiðir. 31 Forsalur hliðsins sneri að ytri forgarðinum. Stoðirnar í því voru skreyttar með pálmum og átta þrep lágu upp að því.
32 Síðan fór hann með mig inn í innri forgarðinn að austanverðu. Hann mældi hliðið og var það jafnstórt hinum. 33 Hliðarstúkur hliðsins, stoðir og forsalur voru af sömu stærð og í hinum hliðunum. Á hliðinu og forsal þess voru gluggar allt í kring. Það var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm á breidd. 34 Forsalur þess sneri að ytri forgarðinum og stoðir þess voru skreyttar pálmum báðum megin. Átta þrep lágu upp að því.
35 Þá fór hann með mig að norðurhliðinu og mældi það. Allt var jafnstórt og í hinum, 36 hliðarstúkurnar, stoðirnar og forsalurinn. Á því voru gluggar allt í kring. Hliðið var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm á breidd. 37 Forsalur þess sneri að ytri forgarðinum og stoðir þess voru skreyttar pálmum báðum megin. Átta þrep lágu upp að því.
38 Þarna var sérstakt herbergi og opnuðust dyr þess inn í forsal hliðsins. Þar var brennifórnin þvegin. 39 Í forsal hliðsins stóðu tvö borð, hvort sínum megin. Á þeim átti að slátra dýrum til brenni-, syndar- og sektarfórna. 40 Utan við hliðarvegginn, við uppganginn og innganginn í hliðið sem snýr í norður, stóðu tvö borð og önnur tvö við hinn hliðarvegg forsalar hliðsins. 41 Voru fjögur borð við hliðarveggi hliðsins beggja vegna, alls átta borð sem fórnardýrum var slátrað á.
42/43 Brennifórnarborðin fjögur voru gerð úr tilhöggnum steinum. Þau voru ein og hálf alin á lengd, ein og hálf á breidd og ein alin á hæð. Inni í húsinu var komið fyrir hillum allt í kring, sem voru ein þverhönd á breidd. Á þær voru áhöldin lögð, sem notuð voru til að slátra dýrum í brenni- og sláturfórn, en fórnarkjötið var lagt á borðin.

Innri forgarðurinn og musterisbyggingin

44 Utan við innra hliðið í innri forgarðinum voru tvær álmur. Önnur var við hliðarvegg norðurhliðsins, sem snýr í suður, og hin við hliðarvegg suðurhliðsins sem veit í norður. 45 Hann sagði við mig: „Álman sem snýr í suður er ætluð prestunum sem gegna þjónustu í musterinu. En álman sem snýr í norður er ætluð prestunum sem gegna þjónustu við altarið. 46 Þeir eru niðjar Sadóks og eru þeir einu af niðjum Leví sem mega nálgast Drottin til að þjóna honum.“
47 Hann mældi forgarðinn. Hann var ferningur, hundrað álnir á lengd og hundrað á breidd, og altarið stóð fyrir framan húsið.
48 Því næst leiddi hann mig inn í forsal musterisins og mældi stoðirnar í forsalnum. Þær voru fimm álnir hvorum megin. Inngangurinn í hliðið var fjórtán álnir á breidd og hliðarveggirnir við innganginn voru hvor um sig þrjár álnir. 49 Forsalurinn var tuttugu álnir á breidd og tólf á lengd og lágu tíu þrep upp að honum. Súlur voru við stoðirnar, ein hvorum megin.