1 Þegar Bíleam skildi að það var Drottni þóknanlegt að blessa Ísrael vék hann ekki afsíðis til að leita spáfregna eins og fyrri skiptin, heldur sneri hann í átt til eyðimerkurinnar. 2 Þegar Bíleam leit upp sá hann Ísrael sem hafði sest að eftir ættbálkum. Þá kom andi Guðs yfir hann 3 og hann tók að flytja boðskap sinn og sagði:
Svo segir Bíleam Beórsson,
svo segir maður með lokuð augu,
4svo segir sá sem heyrir orð Guðs,
sem sér það sem Alvaldur birtir,
hann liggur með opin augu.
5Hve fögur eru tjöld þín, Jakob,
bústaðir þínir, Ísrael.
6Þeir eru breiddir út sem árkvíslir,
eins og trjágarðar á fljótsbakka,
eins og eik gróðursett af Drottni,
sedrustré við vatn.
7Vatn flýtur úr fötu hans
og útsæði hans er baðað í vatni.
Konungur hans er voldugri en Agag
og konungsvald hans eflist.
8Guð leiddi hann út úr Egyptalandi,
hann ber horn sem villinaut,
gleypir þjóðir sem þrengja að honum,
molar bein þeirra
og brýtur örvar þeirra.
9Hann bælir sig, leggst eins og ljón,
ungt ljón, hver rekur það á fætur?
Blessaður sé hver sem blessar þig,
bölvaður hver sem bölvar þér.

10 Reiði Balaks blossaði nú upp gegn Bíleam, hann sló saman lófum og sagði við hann: „Ég sótti þig til að bölva fjandmönnum mínum en þú hefur blessað þá þrisvar. 11 Farðu nú heim til þín. Ég lofaði þér miklum launum en Drottinn kom í veg fyrir það.“ 12 Þá sagði Bíleam við Balak: „Sagði ég ekki við mennina sem þú sendir til mín: 13 Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli gæti ég ekki gengið gegn boðum Drottins og gert gott eða illt að eigin geðþótta. Ég hlýt að segja það eitt sem Drottinn býður. 14 En nú ætla ég að fara heim til þjóðar minnar. Samt ætla ég að skýra þér frá því hvernig þessi þjóð mun fara með þjóð þína þegar fram líða stundir.“ 15 Hann tók að flytja boðskap sinn og sagði:
Svo segir Bíleam Beórsson,
svo segir maður með lokað auga, [
16svo segir sá sem heyrir orð Guðs,
sem sér það sem Alvaldur birtir
og hefur hnigið niður með opin augu.
17Ég sé hann, en ekki nú,
horfi á hann, samt er hann ekki nærri.
Stjarna rís upp frá Jakobi,
veldissproti hefst upp í Ísrael
sem merja mun gagnaugu Móabs
og hvirfil allra sona Sets.
18Edóm verður tekinn til eignar
og Seír, fjandmaður hans, verður einnig tekinn til eignar
en Ísrael eflist
19og Jakob mun ríkja.
Hann mun eyða þeim sem komust undan frá borginni.

20 Þegar hann sá Amalek flutti hann boðskap sinn og sagði:
Amalek var fremstur þjóða
en fellur í valinn að lokum.

21 Þegar hann sá Keníta flutti hann boðskap sinn og sagði:
Dvalarstaður þinn er traustur,
hreiður þitt gert á kletti,
22 samt verður því eytt.
Hve langt er þar til Assúr flytur þig burt sem fanga, Kain?

23 Hann tók enn að flytja boðskap sinn og sagði:
Vei! Hverjir flykkjast að úr norðri?
24 Skip koma frá Kittum,
þau munu niðurlægja Assúr, niðurlægja Eber
en hann mun einnig farast að lokum.

25 Síðan hélt Bíleam af stað og fór aftur heim til sín. Balak fór einnig leiðar sinnar.