Friðarsáttmálinn

1Fagna þú, óbyrja, sem ekki hefur fætt,
hef upp fagnaðaróp og hrópa af gleði,
þú sem aldrei hefur haft hríðir,
því að börn hinnar yfirgefnu verða fleiri
en giftu konunnar, segir Drottinn.
2Víkka þú út tjald þitt,
þendu út tjalddúk þinn og sparaðu hann ekki.
3Lengdu stögin og festu hælana vel
því að þú munt breiðast út
til suðurs og norðurs
og niðjar þínir munu leggja undir sig þjóðir
og setjast að í auðum borgum.
4Óttast ekki því að þú verður ekki til skammar,
óttast ekki niðurlægingu
því að þú verður ekki auðmýkt.
Þú skalt gleyma vanvirðu æsku þinnar
og ekki framar minnast smánar ekkjudóms þíns
5því að skapari þinn er eiginmaður þinn,
Drottinn allsherjar er nafn hans
og Hinn heilagi Ísraels er lausnari þinn,
hann sem nefnist Guð allrar jarðarinnar. [
6Já, Drottinn kallaði þig
eins og yfirgefna konu og harmþrungna
en hver getur hafnað konu
sem hann eignaðist í æsku? segir Guð þinn.
7Skamma stund yfirgaf ég þig
en af mikilli miskunnsemi tek ég þig að mér.
8Í ólgandi heift huldi ég auglit mitt fyrir þér um stund
en miskunna þér með ævarandi kærleika,
segir Drottinn, lausnari þinn.
9Mér virðist þetta eins og á dögum Nóa,
ég sór þá að Nóaflóð kæmi ekki oftar yfir jörðina
en sver nú að reiðast þér hvorki né ógna þér.
10Því að þótt fjöllin bifist
og hæðirnar haggist
mun kærleikur minn til þín ekki bifast
og friðarsáttmáli minn ekki haggast,
segir Drottinn sem miskunnar þér.

Endurreisn Jerúsalem

11Þú auma, hrakta borg,
sem enga huggun hlýtur,
nú legg ég undirstöður þínar gimsteinum
og geri grunn þinn úr safírum,
12múrtinda þína úr rúbínum,
hlið þín úr kristöllum
og alla múra þína úr dýrum steinum.
13Allir synir þínir verða lærisveinar Drottins
og hagsæld barna þinna verður mikil.
14Þú verður reist á réttlæti
og fjarri allri kúgun,
því þarftu ekki að óttast,
fjarri allri skelfingu
því að hún kemst hvergi nærri þér.
15Ráðist einhver á þig er það gegn vilja mínum
og sá sem á þig ræðst skal falla fyrir þér.
16Sjáið, ég skapaði smiðinn
sem blæs að eldinum og smíðar alls kyns vopn.
Ég skapaði einnig eyðandann til að leggja í eyði.
17Ekkert vopn, sem smíðað verður gegn þér,
skal reynast sigursælt
og sérhverja tungu, sem mælir gegn þér,
skaltu dæma seka.
Þetta er hlutskipti þjóna Drottins
og sá réttur sem þeir fá frá mér,
segir Drottinn.