Davíð og Batseba

1 Um áramót, þegar konunga er siður að fara í hernað, sendi Davíð menn sína og allan Ísrael í leiðangur undir stjórn Jóabs. Þeir eyddu land Ammóníta og settust um Rabba en Davíð hélt kyrru fyrir í Jerúsalem.
2 Kvöld eitt reis Davíð úr rekkju sinni og fór að ganga um á þaki konungshallarinnar. Þegar honum varð litið ofan af þakinu sá hann konu vera að baða sig. Konan var forkunnarfögur. 3 Davíð sendi nú mann og lét hann spyrjast fyrir um konuna. Sendimaðurinn tilkynnti: „Þetta er Batseba Elíamsdóttir, eiginkona Hetítans Úría.“ 4 Davíð sendi nú menn til að sækja hana. Hún kom til hans og hann lagðist með henni en hún hafði einmitt verið að hreinsa sig af óhreinleika sínum. Síðan fór hún aftur heim. 5 Konan varð þunguð og sendi því mann til Davíðs með þessi skilaboð: „Ég er með barni.“
6 Davíð sendi þá Jóab þessi boð: „Láttu Hetítann Úría koma til mín,“ og Jóab sendi Úría til Davíðs. 7 Þegar Úría kom til hans spurði Davíð um líðan Jóabs og hersins og um gang stríðsins. 8 Síðan sagði Davíð við Úría: „Farðu nú heim til þín og þvoðu rykið af fótum þínum.“ Úría hvarf þá brott úr höllinni og var gjöf frá konungi send á eftir honum.
9 En Úría lagðist við hallardyrnar á meðal annarra þjóna herra síns og fór ekki heim til sín. 10 Davíð var tilkynnt þetta með þessum orðum: „Úría er ekki farinn heim til sín.“ Þá spurði Davíð Úría: „Ertu ekki nýkominn úr ferðalagi? Hvers vegna ferðu ekki heim til þín?“ 11 Úría svaraði Davíð: „Örkin, Ísrael og Júda búa nú í hreysum og yfirmaður minn, Jóab, og menn herra míns hafa tjaldað úti á víðavangi. Á ég þá að fara heim til mín til þess að matast og drekka og liggja með konu minni? Svo sannarlega sem þú lifir og líf er í æðum þínum geri ég þetta ekki.“
12 Þá svaraði Davíð Úría: „Vertu þá hér í dag en á morgun sendi ég þig frá mér.“ Úría var því um kyrrt í Jerúsalem þennan dag. Daginn eftir 13 bauð Davíð honum til sín og mataðist með honum. Hann hélt að honum drykk svo að Úría varð drukkinn. Um kvöldið fór hann samt til þjóna herra síns og lagðist til svefns á sínum stað meðal þjóna herra síns í stað þess að fara heim til sín.

Launráð gegn Úría

14 Morguninn eftir skrifaði Davíð Jóab bréf og sendi það með Úría. 15 Í bréfinu stóð: „Settu Úría í fremstu víglínu þar sem bardaginn er harðastur. Hörfið síðan frá honum svo að hann falli og týni lífi.“
16 Jóab fylgdist með því sem gerðist í borginni og sendi Úría þangað sem hann vissi að sérlega sterkir hermenn voru fyrir. 17 Þegar mennirnir réðust út úr borginni og réðust á Jóab féllu nokkrir af hermönnum Davíðs. Meðal þeirra sem létu lífið var Hetítinn Úría.
18 Jóab sendi nú sendiboða til Davíðs til að skýra honum frá gangi bardagans 19 og lagði áherslu á þetta: „Þegar þú hefur sagt konungi frá sem greinilegast 20 má vera að hann reiðist og segi: Hvers vegna þurftuð þið að berjast svona nærri borginni? Gátuð þið ekki búist við skotum ofan af múrnum? 21 Hver drap Abímelek Jerúbbesetsson? Var það ekki kona sem henti kvarnarsteini á hann ofan af borgarmúrnum í Tebes svo að hann dó? Hví fóruð þið svo nærri borgarmúrnum? Þá skaltu svara: Þjónn þinn, Hetítinn Úría, var meðal þeirra sem féllu.“
22 Sendiboðinn fór og tilkynnti Davíð allt sem Jóab hafði fyrir hann lagt og 23 sagði við Davíð: „Af því að andstæðingarnir voru öflugri en við réðust þeir á okkur úti á vellinum en okkur tókst að hrekja þá aftur að borgarhliðinu. 24 Þá tóku skytturnar að skjóta á menn þína ofan af borgarmúrnum og felldu þær nokkra af mönnum konungs. Þjónn þinn, Hetítinn Úría, var á meðal þeirra sem féllu.“
25 Þá sagði Davíð við sendiboðann: „Berðu Jóab eftirfarandi skilaboð: Láttu þetta ekki á þig fá því að sverðið bítur til bana hvern sem vera skal. En hertu árásina á borgina, leggðu hana í rúst, og teldu þannig kjark í hann.“
26 Þegar eiginkona Úría frétti að Úría, maður hennar, væri fallinn syrgði hún hann. 27 Þegar sorgartíminn var liðinn lét Davíð sækja hana og flytja í hús sitt. Hún varð eiginkona hans og fæddi honum son.
En það sem Davíð hafði gert var illt í augum Drottins.