Stríðsógnun og refsing

1Leitið skjóls, Benjamíns niðjar,
flýið frá Jerúsalem.
Þeytið hornið í Tekóa,
reisið upp merki yfir Betkerem,
því að ógæfa ógnar úr norðri,
mikil eyðing.
2Þú líkist fögru engi, dóttirin Síon,
3sem fjárhirðar sækja í með búsmala sinn.
Þeir hafa slegið upp tjöldum sínum umhverfis borgina,
hver um sig beitir sinn blett.
4Hefjið árás á hana.
Gerið áhlaup á hádegi.
Vei oss, degi hallar,
kvöldskuggarnir lengjast.
5Af stað, gerum áhlaup í nótt.
Brjótum niður hallir hennar.
6Því að svo segir Drottinn hersveitanna:
Fellið tré hennar, hlaðið virki gegn Jerúsalem.
Fullyrt er um þessa borg:
Í henni er aðeins kúgun.
7Eins og brunnur gefur ferskt vatn
er borgin uppspretta illvirkja.
Ofbeldi og kúgun bergmálar í henni,
þjáning og ofbeldi blasir hvarvetna við mér.
8Láttu þér segjast, Jerúsalem,
annars slít ég þig frá mér,
annars geri ég þig að eyðimörk,
að óbyggðu landi.

Þverúð Jerúsalembúa

9Svo segir Drottinn hersveitanna:
Gerðu nákvæma eftirleit meðal leifa Ísraels
eins og eftirleit á vínviði.
Réttu hönd þína aftur og aftur að vínviðargreinunum
eins og sá sem tínir vínber.
10Við hvern á ég að tala,
hver hlustar þegar ég vara við?
Eyra þeirra er óumskorið,
þeir vilja ekki hlusta.
Þeir skopast að orði Drottins,
þeim fellur það ekki í geð.
11Ég er fullur af glóandi heift Drottins,
ég er uppgefinn á að halda henni í skefjum.
Helltu henni yfir börnin úti á götunni
og yfir unglingahópinn.
Bæði karlar og konur verða tekin til fanga,
aldraðir jafnt og háaldraðir.
12Hús þeirra verða annarra eign,
akrar þeirra og eiginkonur,
því að ég rétti hönd mína út yfir landið, segir Drottinn.
13Allir, háir sem lágir, sækjast eftir gróða af okri,
bæði spámenn og prestar,
allir hafa þeir svik í frammi.
14Þeir vilja lækna limlesta þjóð mína með hægu móti
og segja: „Heill, heill,“ þar sem engin heill er.
15Þeir ættu að skammast sín
því að þeir hafa hegðað sér viðurstyggilega.
En þeir skammast sín ekki
því að þeir þekkja enga blygðun.
Þess vegna munu þeir falla með þeim sem falla.
Þegar ég dreg þá til ábyrgðar
verður þeim steypt, segir Drottinn.

Laun óhlýðninnar

16Svo segir Drottinn:
Nemið staðar við vegina og litist um,
spyrjið um gömlu göturnar,
hver sé hamingjuleiðin
og farið hana svo að þér finnið sálum yðar hvíld.
En þeir sögðu: „Vér viljum ekki fara hana.“
17Ég setti yfir yður varðmenn.
Hlustið á hornablásturinn.
En þeir sögðu: „Vér viljum ekki hlusta.“
18Heyrið því, þjóðir,
þú skalt vita, söfnuður,
hvað um þá verður.
19Heyr það, jörð.
Ég færi þessari þjóð ógæfu.
Það er ávöxtur þeirra eigin hugarfars
því að þeir hafa ekki hlustað á orð mín,
þeir hafa hafnað lögum mínum.
20Hvað á ég að gera við reykelsi frá Saba
eða góðan ilmreyr frá fjarlægu landi?
Brennifórnir yðar eru mér ekki þóknanlegar
og sláturfórnir yðar geðjast mér ekki.
21Þess vegna segir Drottinn:
Ég legg hrösunarhellu fyrir þessa þjóð
svo að þeir hrasi um hana,
feður og synir, grannar og vinir.

Enn um árás úr norðri

22 Svo segir Drottinn:
Þjóð ein kemur frá landi í norðri,
mikil þjóð heldur af stað frá endimörkum jarðar.
23 Þeir eru vopnaðir bogum og spjótum,
þeir eru grimmir og miskunnarlausir.
Háreysti þeirra er sem hafgnýr,
þeir koma ríðandi á hestum,
hver og einn búinn til bardaga gegn þér, dóttirin Síon.
24 Vér höfðum varla heyrt fréttina
þegar hendur vorar lömuðust,
skelfingin greip oss,
kvöl eins og konu í barnsnauð.
25 Farið ekki út á bersvæði,
gangið ekki um vegina
því að fjandmaðurinn er vopnaður sverði,
hættur ógna úr öllum áttum.
26 Dóttir mín, þjóð mín, gyrtu þig hærusekk,
veltu þér í ösku,
efndu til sorgarathafnar eins og eftir einkason,
syrgðu beisklega
því að eyðandinn kemur yfir oss í einu vetfangi.
27 Ég hef falið þér að kanna þjóð mína.
Þú átt að kynna þér og rannsaka lifnað þeirra.
28 Þeir eru allir forhertir uppreisnarmenn,
rógberar, eir og járn,
allir eru þeir afbrotamenn.
29 Smiðjubelgurinn másaði
en úr eldinum kom aðeins blý.
Sá sem bræddi, bræddi til einskis
því að þeir illu urðu ekki skildir frá.
30 Þeir kallast ógilt silfur
því að Drottinn hefur fellt þá úr gildi.