Styrjöld Ísraels og Móabs

1 Jóram Akabsson varð konungur Ísraels í Samaríu á átjánda stjórnarári Jósafats Júdakonungs og ríkti tólf ár. 2 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins, þó ekki eins og faðir hans og móðir því að hann fjarlægði minnisstein Baals sem faðir hans hafði látið gera. 3 En samt hélt hann áfram að drýgja þær syndir[ sem Jeróbóam Nebatsson hafði komið Ísrael til að drýgja og lét ekki af því.
4 Mesa, konungur í Móab, var fjáreigandi. Hann varð að greiða Ísraelskonungi hundrað þúsund lömb og ull af hundrað þúsund hrútum í skatt. 5 En eftir dauða Akabs gerði Móabskonungur uppreisn gegn Ísraelskonungi. 6 Jóram konungur hélt þegar í stað frá Samaríu og kvaddi allan Ísrael til vopna. 7 Því næst sendi hann Jósafat Júdakonungi þessi boð: „Konungur Móabs hefur gert uppreisn gegn mér. Vilt þú fara með mér í stríð við Móab?“ „Já,“ svaraði hann, „ég fer með þér, þjóð mín með þjóð þinni, hestar mínir með hestum þínum.“ 8 „Hvaða leið eigum við að fara?“ spurði hann einnig. „Leiðina gegnum eyðimörkina í Edóm,“ svaraði Jóram.
9 Ísraelskonungur, Júdakonungur og Edómskonungur héldu af stað. Þegar þeir höfðu farið sjö dagleiðir skorti vatn handa hernum og skepnunum sem þeir höfðu með sér. 10 Ísraelskonungur sagði: „Æ, Drottinn hefur vissulega kallað þessa þrjá konunga til þess að selja þá í hendur Móabs.“ 11 Þá sagði Jósafat: „Er enginn spámaður Drottins hér sem við getum látið leita svara frá Drottni?“ Einn af hirðmönnum Ísraelskonungs svaraði: „Hér er Elísa Safatsson sem hefur hellt vatni yfir hendur Elía.“ 12 Jósafat sagði: „Orð Drottins er hjá honum.“ Ísraelskonungur, Jósafat og konungur Edóms gengu þá niður til hans. 13 En Elísa sagði við Ísraelskonung: „Hvað kemur þú mér við? Farðu til spámanna föður þíns og spámanna móður þinnar.“ Ísraelskonungur svaraði honum: „Nei, enda er það Drottinn sem hefur kallað þessa þrjá konunga út til þess að selja þá í hendur Móabs.“ 14 Þá sagði Elísa: „Svo sannarlega sem Drottinn hersveitanna lifir, sá er ég þjóna, liti ég ekki einu sinni á þig né virti þig viðlits væri það ekki vegna Jósafats Júdakonungs. 15 En sækið nú hörpuleikara.“
Þegar hörpuleikarinn tók að leika kom hönd Drottins yfir Elísa 16 og hann sagði: „Svo segir Drottinn: Grafið gryfjur um allan þennan dal 17 því að svo segir Drottinn: Þið munuð hvorki sjá vind né regn en samt skal þessi dalur fyllast af vatni svo að þið getið drukkið ásamt her ykkar og skepnum. 18 En þetta eru smámunir í augum Drottins. Hann mun því einnig selja Móab ykkur í hendur. 19 Þið munuð vinna hvert virki og hverja mikilvæga borg, fella öll nytjatré og stífla allar uppsprettur og spilla með grjóti sérhverjum frjósömum landskika.“ 20 Morguninn eftir, þegar tími var kominn til að færa morgunfórn, flæddi skyndilega vatn frá Edóm og færði landsvæðið í kaf.
21 Þegar allir Móabítar heyrðu að konungarnir væru komnir til að gera árás voru allir vopnfærir menn kallaðir til herþjónustu og tóku þeir sér stöðu við landamærin. 22 Þeir fóru á fætur árla morguns við sólarupprás. Þegar sólin skein á vatnið virtist Móabítum úr fjarlægð sem vatnið væri rautt eins og blóð. 23 „Þetta er blóð,“ sögðu þeir. „Konungarnir hafa gripið til vopna og drepið hver annan. Hirðið nú herfangið, Móabítar.“
24 Þegar þeir komu að herbúðum Ísraels gerðu Ísraelsmenn útrás og hjuggu Móabíta niður eða hröktu þá á flótta. Ísraelsmenn eltu Móabíta uppi og stráfelldu þá. 25 Síðan rifu þeir niður borgirnar og á alla frjósama landskika köstuðu þeir sínum steininum hver og þöktu þá grjóti. Þeir stífluðu allar uppsprettur og hjuggu öll nytjatré. Loks var Kír Hareset ein eftir. Hana umkringdu slöngukastarar og vörpuðu á hana grjóti.
26 Þegar Móabskonungur sá að árásin var harðari en svo að hann gæti staðist hana safnaði hann saman sjö hundruð mönnum vopnuðum sverðum og reyndi að brjótast í gegn til Edómskonungs en án árangurs. 27 Þá tók hann son sinn frumgetinn, sem átti að verða konungur eftir hann, og fórnaði honum í brennifórn á borgarmúrunum. Varð þá mikil reiði gegn Ísraelsmönnum. Þeir tóku sig upp og héldu heim til lands síns.