1 Drottinn mælti til Jobs og sagði:
2Ætlar ámælismaðurinn að deila við Hinn almáttka?
Sá sem ásakar Guð svari þessu.

Svar Jobs

3 Job svaraði Drottni og sagði:
4Nei, ég er léttvægur, hverju get ég svarað þér?
Ég legg hönd mér á munn.
5Einu sinni hef ég talað og svara ekki,
tvisvar og endurtek það ekki.

Önnur ræða Drottins

6 Drottinn svaraði Job úr storminum og sagði:
7Gyrtu nú lendar þínar eins og maður.
Nú ætla ég að spyrja þig, þú skalt svara mér.
8Ætlarðu að hafa dóm minn að engu,
dæma mig sekan svo að þú verðir réttlættur?
9Er armur þinn eins og armur Guðs,
geturðu þrumað með sömu raust og hann?
10Skrýddu þig nú hátign og mætti
og klæðstu dýrð og ljóma,
11helltu úr skálum reiði þinnar,
líttu á hrokagikkinn og niðurlægðu hann,
12líttu á hrokagikkinn og auðmýktu hann,
traðkaðu óguðlega niður hvar sem þeir eru,
13hyl þá mold, alla sem einn,
lokaðu þá inni á leyndum stað
14og ég skal lofa þig.
15Líttu á flóðhestinn sem ég skapaði eins og þig,
hann bítur gras eins og naut.
16Sjáðu aflið í lendum hans
og kraftinn í kviðvöðvum hans.
17Hann sperrir halann eins og sedrustré,
sinarnar í lærum hans eru samantvinnaðar,
18beinin eru eirpípur,
leggirnir járnstengur.
19Hann er frumsköpun Guðs,
skapari hans einn getur nálgast hann með sverði
20en fjöllin færa honum afrakstur sinn
og þar eru villtu dýrin að leik.
21Hann liggur undir lótusrunnum,
falinn í sefi og mýrarkeldum,
22 lótusrunnar hylja hann skugga,
pílviðir á árbakka umlykja hann.
23 Hann hrökklast ekki burt þótt fljótið vaxi,
hann er óhultur þegar Jórdan flæðir í gin hans.
24 Hver getur blindað hann og fangað,
sett króka í nasir hans?
25 Geturðu veitt krókódílinn á öngul,
þrýst niður tungu hans með færi,
26 dregið sefreipi gegnum nasir hans
og stungið krók gegnum kjálka hans?
27 Sárbænir hann þig um miskunn
eða talar hann vinsamlega til þín?
28 Gerir hann samning við þig
um að þú gerir hann að þræli þínum ævinlega?
29 Leikurðu við hann eins og smáfugl,
bindur hann fastan handa stúlkubörnum þínum?
30 Þjarka stórkaupmenn um hann
og skipta honum meðal smásala?
31 Geturðu þakið húð hans skutlum,
haus hans kastspjótum?
32 Leggðu lófa þinn á hann,
settu þér bardagann fyrir sjónir, þú gerir það ekki aftur.