Þriðji hluti

Bænhús fyrir allar þjóðir

1Svo segir Drottinn:
Varðveitið réttinn og iðkið réttlæti
því að hjálpræði mitt er í nánd
og réttlæti mitt birtist bráðlega.
2Sæll er sá maður sem breytir þannig
og heldur fast við það
að halda hvíldardaginn án þess að vanhelga hann
og varðveitir hönd sína frá því að gera illt.
3Útlendingur, sem er genginn Drottni á hönd,
skal ekki segja:
„Drottinn skildi mig frá þjóð sinni,“
og geldingur skal ekki segja:
„Ég er visið tré.“
4Því að svo segir Drottinn:
Geldingar, sem halda hvíldardaga mína,
hafa valið það sem mér þóknast
og halda sér fast við sáttmála minn,
5þeim gef ég í húsi mínu og innan múra minna
minnismerki og nafn
sem er betra en synir og dætur.
Eilíft nafn vil ég gefa þeim,
það er aldrei mun afmáð verða.
6Og útlendinga, sem gengnir eru Drottni á hönd
til að þjóna honum og elska nafn hans,
til að verða þjónar hans,
alla þá sem halda hvíldardaginn og vanhelga hann ekki
og halda sér fast við sáttmála minn,
7mun ég leiða til míns heilaga fjalls
og gleðja þá í bænahúsi mínu.
Brennifórnir þeirra og sláturfórnir
munu þóknast mér á altari mínu
því að hús mitt skal nefnast
bænahús fyrir allar þjóðir.
8Svo segir Drottinn Guð
sem safnar saman hinum burtreknu Ísraelsmönnum:
Ég mun safna að þeim enn fleiri
en þeim sem þegar hafa safnast saman.

Leiðtogar Ísraels fordæmdir

9Komið, öll dýr merkurinnar,
komið, öll dýr skógarins, og étið.
10Allir verðir Ísraels eru blindir,
þeir vita ekkert,
þeir eru allir hljóðir hundar
sem geta ekki gelt,
þeir liggja í draummóki,
þykir gott að lúra.
11En þetta eru gráðugir hundar
sem aldrei fá fylli sína,
þeir eru fjárhirðar
sem eru skilningssljóir
og fara hver sína leið,
allir sem einn elta þeir eigin gróða.
12„Komið, ég skal sækja vín,
vér skulum drekka duglega.
Morgundagurinn verður sem þessi,
jafnvel enn betri.“