Lokað hlið

1 Maðurinn leiddi mig aftur að ytra hliði helgidómsins sem snýr í austur. 2 Þá sagði Drottinn við mig: Þetta hlið skal vera lokað. Ekki má opna það og enginn maður má ganga um það. Þar sem Drottinn Guð Ísraels kom inn um það skal það vera lokað. 3 Þar sem landshöfðinginn er landshöfðingi má hann sitja inni í hliðinu og neyta matar frammi fyrir augliti Drottins. Hann á að ganga inn í hliðið úr forsal hliðbyggingarinnar og ganga út sömu leið.

Levítar og prestar

4 Þá leiddi maðurinn mig um norðurhliðið að framhlið hússins. Þegar ég horfði þangað sá ég að dýrð Drottins fyllti hús Drottins og ég féll fram á ásjónu mína. 5 Þá sagði Drottinn við mig: Mannssonur, taktu nú vel eftir og horfðu með augum þínum og hlustaðu með eyrum þínum á allt sem ég segi þér um öll ákvæðin um hús Drottins og öll lögin um það. Hafðu einnig nánar gætur á inngöngudyrum musterisins og öllum útgöngudyrum helgidómsins.
6 Þú skalt segja við hina þverúðugu, við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Nú er nóg komið af öllum ykkar viðurstyggðum, Ísraelsmenn. 7 Þið hafið leyft útlendingum, sem hvorki eru umskornir á hjarta né holdi, að koma inn í helgidóm minn og saurga hann, hús mitt, þegar þið hafið borið fram mat minn, mör og blóð. Þið hafið rofið sáttmálann við mig með allri ykkar svívirðu. 8 Þið önnuðust ekki þjónustuna í helgidómi mínum en létuð útlendinga annast hana fyrir ykkur í helgidómi mínum.
9 Þess vegna segir Drottinn svo: Enginn útlendingur, sem hvorki er umskorinn á hjarta né holdi, má koma inn í helgidóm minn, enginn af þeim útlendingum sem búa innan um Ísraelsmenn. 10 En Levítarnir fjarlægðust mig þegar Ísrael villtist frá mér og elti skurðgoð sín og þeir skulu bera afleiðingar sektar sinnar. 11 Í helgidómi mínum eiga þeir að annast vörslu hliðanna í húsinu og sjá um þjónustu í því. Þeir eiga að slátra dýrum til brennifórnar og sláturfórnar fyrir almenna borgara og þjóna þeim. 12 Þeir þjónuðu þeim frammi fyrir skurðgoðum þeirra og urðu Íraelsmönnum ásteytingarsteinn svo að þeir féllu í synd. Því hef ég hafið hönd mína gegn þeim, segir Drottinn Guð, og þeir skulu bera afleiðingar sektar sinnar. 13 Þeir mega ekki nálgast mig til að þjóna mér sem prestar svo að þeir nálgist mínar heilögu fórnargjafir, mínar háheilögu fórnargjafir. Þeir skulu taka á sig eigin smán og afleiðingar þeirrar svívirðu sem þeir hafa framið. 14 Ég geri þá að þjónustumönnum í musterishúsinu, þeir skulu vinna hvert það verk sem þar þarf að vinna og gera allt sem þar til fellur.
15 Levítaprestarnir, niðjar Sadóks, önnuðust þjónustuna í helgidómi mínum þegar Ísraelsmenn villtust frá mér. Þeir skulu nálgast mig til að þjóna mér, standa frammi fyrir augliti mínu og bera fram fyrir mig mör og blóð, segir Drottinn Guð. 16 Þeir skulu ganga inn í helgidóm minn og nálgast borð mitt til að þjóna mér og það eru þeir sem eiga að annast þjónustuna við mig.
17 Þegar þeir ganga inn um hlið innri forgarðsins skulu þeir klæðast línklæðum. Þeir mega ekki vera í neinu úr ull þegar þeir gegna þjónustu í hliðum innri forgarðsins eða inni í húsinu. 18 Þeir skulu hafa höfuðdúk úr líni á höfði og línbrækur um lendar. Þeir mega ekki gyrðast neinu sem veldur svita. 19 Þegar þeir ganga út í ytri forgarðinn, til fólksins, skulu þeir fara úr þeim klæðum sem þeir báru við þjónustuna og skilja þau eftir í hinum heilögu herbergjum og fara í önnur föt svo að þeir helgi ekki fólkið með klæðum sínum. 20 Þeir mega hvorki raka höfuð sitt né láta hárið flaksa laust. Þeir skulu skera höfuðhár sitt stutt. 21 Enginn prestur má drekka vín þegar hann gengur inn í innri forgarðinn. 22 Þeir mega ekki ganga að eiga ekkjur eða fráskildar konur, heldur aðeins meyjar af ætt Ísraelsmanna. En þeir mega taka sér prestsekkju að eiginkonu. 23 Þeir skulu leiðbeina þjóð minni um muninn á því sem er heilagt og vanheilagt og kenna henni muninn á óhreinu og hreinu. 24 Þeir skulu koma fram sem dómarar í deilumálum fyrir rétti og dæma samkvæmt réttarreglum mínum. Á öllum hátíðum mínum skulu þeir halda lög mín og ákvæði og halda hvíldardaga mína heilaga. 25 Þeir mega ekki saurga sig á að nálgast látinn mann. Þeir mega aðeins saurgast á líki föður, móður, sonar, dóttur, bróður eða systur sem enn hefur ekki verið gefin manni. 26 En eftir að hann hefur verið úrskurðaður hreinn skulu sjö dagar líða. 27 Og daginn sem hann gengur inn í innri forgarð helgidómsins, til þess að gegna þjónustu þar, skal hann færa syndafórn fyrir sig, segir Drottinn Guð.
28 Prestarnir mega ekki eiga neinn erfðahlut, ég er erfðahlutur þeirra. Þið megið ekki gefa þeim neina eign í Ísrael, ég er eign þeirra. 29 Þeir skulu neyta kornfórnarinnar, syndafórnarinnar og sektarfórnarinnar, og allt sem helgað er banni í Ísrael skal vera þeirra eign. 30 Prestarnir skulu fá það besta af öllum frumgróða, hvað sem það er, og af öllum afgjöldum, hver sem þau eru, af öllum afgjöldum ykkar yfirleitt. Þið skuluð gefa prestinum það besta af deigi ykkar svo að blessun hvíli yfir húsi ykkar. 31 Prestarnir mega hvorki leggja sér til munns sjálfdautt né dýrrifið, hvort heldur það er fuglar eða búfé.