1 Þegar öllu verki Salómons við hús Drottins var lokið flutti hann helgigjafir Davíðs, föður síns, þangað og setti silfrið, gullið og öll áhöldin í fjárhirslu húss Guðs.

Örkin flutt í musterið

2 Þá safnaði Salómon til sín í Jerúsalem öldungum Ísraels, öllum ættbálkahöfðingjum og ættarhöfðingjum Ísraels, til þess að flytja sáttmálsörk Drottins frá borg Davíðs, það er Síon. 3 Allir Ísraelsmenn komu saman hjá konunginum á hátíðinni í sjöunda mánuðinum. 4 Allir öldungar Ísraels komu og Levítarnir tóku örkina 5 og fluttu upp eftir ásamt opinberunartjaldinu og öllum hinum heilögu áhöldum sem voru í tjaldinu. Prestarnir, það er Levítarnir, sáu um flutninginn. 6 Salómon konungur og allur Ísraelssöfnuður, sem hjá honum var, stóð frammi fyrir örkinni, færðu þar sauði og naut að sláturfórn, slíkan fjölda að hvorki varð talinn né tölu á komið. 7 Því næst fluttu prestarnir sáttmálsörk Drottins á sinn stað í innsta herbergi hússins, í hið allra helgasta, undir vængi kerúbanna 8 því að þeir þöndu út vængina yfir staðnum þar sem örkin stóð. Kerúbarnir huldu örkina og burðarstangir hennar ofan frá. 9 Burðarstangirnar náðu svo langt frá örkinni að enda þeirra mátti sjá framan við innsta herbergið, en ekki utar, og þar hafa þær verið allt til þessa dags. 10 Ekkert var í örkinni annað en töflurnar tvær sem Móse hafði sett í hana við Hóreb þegar Drottinn hafði gert sáttmála við Ísraelsmenn eftir brottför þeirra frá Egyptalandi.
11 Því næst gengu prestarnir út úr helgidóminum. Allir prestarnir, sem voru viðstaddir, höfðu helgað sig án tillits til þjónustuflokka. 12 Levítasöngvararnir Asaf, Heman, Jedútún, synir þeirra og bræður, stóðu í línklæðum austan við altarið með málmgjöll, hörpur og sítara. Hjá þeim stóðu hundrað og tuttugu prestar sem þeyttu lúðra. 13 Lúðurþeytararnir og söngvararnir hljómuðu eins og ein rödd þegar þeir fluttu Drottni lofgjörð og þökk. Þegar þeir hófu að lofa Drottin með lúðrablæstri, málmgjöllum og hljóðfæraleik og sögðu: „Hann er góður og miskunn hans varir að eilífu,“ fyllti ský húsið, hús Drottins. 14 Gátu prestarnir ekki gegnt þjónustu sinni fyrir skýinu því að dýrð Drottins fyllti hús Guðs.