Þjónar nýs sáttmála

1 Er ég nú aftur tekinn að mæla með sjálfum mér? Eða mundi ég þurfa, eins og sumir, meðmælabréf til ykkar eða frá ykkur? 2 Þið eruð meðmælabréf mitt, ritað á hjarta mitt, allir menn geta séð það og lesið. 3 Þið sýnið ljóslega að Kristur hefur ritað þetta bréf og sent það með mér: Það er ekki skrifað með bleki heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld heldur á hjartaspjöld manna.
4 Það er vegna Krists sem ég er svo öruggur frammi fyrir Guði. 5 Ekki svo að skilja að ég sé sjálfur hæfur og geti eitthvað sjálfur heldur er hæfileiki minn frá Guði. 6 Guð hefur gert mig hæfan til að vera þjónn nýs sáttmála sem ekki er ritaður á bók heldur er hann andlegur. Því að bókstafurinn deyðir en andinn lífgar.
7 Lögmálið var skráð með bókstöfum og höggvið á steina. Þó að þeir sem þjónuðu því dæju var dýrð þess slík að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans sem þó varð að engu. 8 Hversu dýrlegri mun þá sú þjónusta vera sem fram fer í anda? 9 Ef þjónustan sem sakfellir var dýrleg þá er þjónustan sem réttlætir enn þá auðugri að dýrð. 10 Í þessu efni verður jafnvel það sem áður var dýrlegt ekki dýrlegt í samanburði við hina yfirgnæfandi dýrð. 11 Því að ef það sem að engu verður kom fram með dýrð þá hlýtur miklu fremur hið varanlega að koma fram í dýrð.
12 Þar eð ég nú hef slíka von þá kem ég fram með mikilli djörfung. 13 Ég geri ekki eins og Móse sem setti skýlu fyrir andlit sér til þess að Ísraelsmenn skyldu ekki horfa á ljóma þess sem var að hverfa. 14 En hugur þeirra varð sljór. Því allt til þessa dags hvílir sama skýlan yfir upplestri hins gamla sáttmála og henni hefur ekki verið svipt burt því að Kristur einn lætur hana hverfa. 15 Já, allt til þessa dags hvílir skýla yfir hjörtum þeirra hvenær sem lesið er úr lögmáli Móse. 16 En „þegar einhver snýr sér til Drottins er skýlan tekin burt“.[ 17 Drottinn er andinn og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi. 18 En við sjáum öll með óhjúpuðu andliti[ dýrð Guðs endurspeglast í Kristi og andi hans lætur okkur umbreytast eftir þeirri sömu mynd til enn meiri dýrðar.