Hjálpræði Ísraels

1 Orð Drottins kom til mín: 2 Mannssonur, ávarpaðu landa þína og segðu við þá: Þegar ég sendi sverð gegn einhverju landi velur þjóðin mann úr sínum hópi og gerir hann að varðmanni sínum. 3 Þegar hann sér sverðið nálgast landið á hann að þeyta hafurshorn og vara fólkið við. 4 Ef einhver heyrir þyt hornsins, en skeytir ekki um hann, og sverðið kemur og lýstur hann kemur blóð hans yfir höfuð hans. 5 Hann heyrði lúðurhljóminn en skeytti ekki um og því kemur blóð hans yfir höfuð hans. Hefði hann skeytt viðvöruninni hefði hann bjargað lífi sínu. 6 En sjái vörðurinn sverðið nálgast og þeytir ekki hornið og varar fólkið ekki við og sverðið kemur og lýstur einhvern hefur þessi maður verið lostinn vegna eigin sektar en ég mun krefjast blóðs hans úr hendi varðarins.
7 En þig, mannssonur, hef ég gert að verði fyrir Ísraelsmenn. Þegar þú heyrir orð úr munni mínum átt þú að vara þá við mér. 8 Þegar ég segi við guðlausan mann: „Þú skalt vissulega deyja,“ og þú hefur ekki talað við hinn guðlausa til að vara hann við breytni sinni er hann sekur. Hann skal deyja vegna syndar sinnar en ég mun krefjast blóðs hans úr hendi þinni. 9 En hafir þú varað hinn guðlausa við breytni sinni til að hann hverfi frá henni, en hann hefur ekki horfið frá breytni sinni, skal hann deyja vegna syndar sinnar en þú hefur bjargað lífi þínu.

Ábyrgð á eigin verkum

10 En þú, mannssonur, segðu við Ísraelsmenn: Þið segið: „Afbrot okkar og syndir hvíla á okkur og vegna þeirra veslumst við upp. Hvernig getum við þá haldið lífi?“ 11 Segðu við þá: Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð: Mér þóknast ekki dauði guðlausra, heldur að hinn guðlausi hverfi frá breytni sinni og lifi. Snúið við, hverfið frá ykkar illu breytni. Hvers vegna viljið þið deyja, Ísraelsmenn?
12 En þú, mannssonur, segðu við landa þína: Réttlæti hins réttláta mun ekki bjarga honum daginn sem hann brýtur af sér. Ranglæti hins rangláta mun ekki heldur fella hann daginn sem hann hverfur frá ranglæti sínu. Hinn réttláti mun ekki halda lífi vegna réttlætis síns þegar hann syndgar. 13 Þegar ég segi um hinn réttláta: „Hann skal lifa,“ en hann treystir á réttlæti sitt og fremur ranglæti skal engra réttlátra verka hans minnst verða. Hann skal deyja vegna þess ranglætis sem hann framdi.
14 En segi ég við hinn rangláta: „Þú skalt deyja,“ og hann hverfur frá synd sinni og iðkar rétt og réttlæti, 15 skilar aftur veði, bætir fyrir ránsfeng, breytir eftir þeim ákvæðum sem leiða til lífs og gerist ekki sekur um ranglæti, þá skal hann vissulega lifa, hann skal ekki deyja. 16 Engra þeirra synda, sem hann hefur drýgt, skal minnst. Hann hefur iðkað rétt og réttlæti, hann skal lífi halda.
17 Landar þínir segja: „Breytni Drottins er ekki rétt,“ en það er þeirra eigin breytni sem ekki er rétt. 18 Þegar hinn réttláti snýr frá réttlæti sínu og fremur ranglæti skal hann deyja vegna þess. 19 En þegar hinn rangláti snýr frá ranglæti sínu og iðkar rétt og réttlæti skal hann lífi halda vegna þess. 20 Samt segið þið, Ísraelsmenn: „Breytni Drottins er ekki rétt.“ En ég mun dæma ykkur, Ísraelsmenn, hvern og einn eftir breytni sinni.

Frétt um fall Jerúsalem

21 Á fimmta degi tíunda mánaðar á tólfta[ árinu frá því við vorum reknir í útlegð kom flóttamaður frá Jerúsalem til mín og sagði: „Borgin er unnin.“ 22 Kvöldið áður en flóttamaðurinn kom hafði hönd Drottins komið yfir mig og áður en flóttamaðurinn kom til mín um morguninn lauk Drottinn upp munni mínum. Munnur minn laukst upp og ég var ekki lengur mállaus.
23 Orð Drottins kom til mín: 24 Mannssonur, íbúarnir í rústunum í landi Ísraels segja: „Abraham var aðeins einn maður, en hann eignaðist landið. Við erum margir og okkur hefur verið fengið það til eignar.“
25 Segðu því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Þið etið kjötið með blóðinu, mænið á skurðgoð ykkar og úthellið blóði. Ætlið þið að taka landið til eignar? 26 Þið treystið sverði ykkar, fremjið viðurstyggileg verk og hver og einn saurgar eiginkonu náunga síns. Ætlið þið svo að taka landið til eignar?
27 Þannig skaltu segja við þá: Svo segir Drottinn Guð: Svo sannarlega sem ég lifi skulu þeir sem eru í rústunum falla fyrir sverði, þá sem eftir eru á bersvæði gef ég villidýrum að bráð og þeir sem eru í klettavirkjum og giljum munu deyja úr drepsótt. 28 Ég mun gera landið að eyðimörk og auðn. Hið glæsta veldi mun líða undir lok og fjöll Ísraels verða auðn sem enginn fer um. 29 Þeir munu skilja að ég er Drottinn þegar ég geri landið að eyðimörk og auðn vegna allrar þeirrar svívirðu sem þeir hafa framið.

Álit manna á spámanninum

30 Þú, mannssonur. Landar þínir ræðast við um þig, upp við veggi og í húsdyrum, og segja hver við annan, hver maður við bróður sinn: „Komið og heyrið orðið sem er komið frá Drottni.“ 31 Síðan flykkjast þeir að þér eins og æstur múgur og setjast frammi fyrir þér eins og þeir séu mitt fólk og hlusta á orð mín. En þeir fara ekki eftir þeim, lygi[ er á vörum þeirra því að hugur þeirra er bundinn við eigin gróða. 32 Þú ert þeim eins og sá sem syngur ástarljóð við góðan undirleik. Þeir hlusta á orð þín en fara ekki eftir þeim. 33 En þegar það kemur fram sem þú hefur sagt, og það mun koma fram, skilja þeir að spámaður hefur verið á meðal þeirra.