Skipting landsins vestan við Jórdan

1 Þetta eru landsvæðin sem Ísraelsmenn tóku sem erfðahlut í Kanaanslandi og Eleasar prestur, Jósúa Núnsson og leiðtogar ættbálka Ísraelsmanna úthlutuðu þeim. 2 Þeir úthlutuðu þessum níu og hálfa ættbálki erfðahlutum með hlutkesti, eins og Drottinn hafði boðið fyrir munn Móse. 3 Því að Móse hafði þegar fengið tveimur og hálfum ættbálki erfðahluti handan við Jórdan en Levítum hafði hann ekki fengið erfðahluti meðal hinna.
4 Niðjar Jósefs voru tveir ættbálkar, Manasse og Efraím. En þeir fengu Levítunum engan erfðahlut í landinu, aðeins borgir til að búa í og beitilöndin sem að þeim lágu fyrir búfé þeirra.
5 Ísraelsmenn framfylgdu því sem Drottinn hafði boðið Móse þegar þeir skiptu landinu.
6 Þá komu Júdamenn til Jósúa í Gilgal og Kaleb Jefúnneson, sem var Kenisíti, sagði við hann: „Þú veist sjálfur hvað Drottinn sagði við guðsmanninn Móse í Kades Barnea um mín mál og þín. 7 Ég var fertugur þegar Móse, þjónn Drottins, sendi mig frá Kades Barnea til þess að kanna landið. Ég greindi honum frá því sem ég hafði orðið vísari 8 en bræður mínir, sem með mér höfðu farið, gerðu fólkið hugdeigt. En sjálfur fylgdi ég Drottni, Guði mínum, heils hugar. 9 Þennan dag sór Móse: Landið, sem þú steigst á, skal ævinlega verða erfðahlutur þinn og niðja þinna af því að þú fylgdir Drottni, Guði þínum, heils hugar. 10 Eins og þú sérð hefur Drottinn látið mig lifa, eins og hann hét. Nú eru fjörutíu og fimm ár liðin síðan Drottinn flutti Móse þennan boðskap og þann tíma hefur Ísrael verið á ferð í eyðimörkinni. Og hér er ég nú eins og þú veist og orðinn hálfníræður. 11 Enn er ég jafnkröftugur og daginn sem Móse sendi mig, enn jafnstyrkur og þá, hvort heldur sem er til að berjast eða halda í leiðangur og snúa heim aftur. 12 Fáðu mér fjalllendið sem Drottinn talaði um þennan dag. Sjálfur heyrðir þú þennan dag að Anakítar eru þar og miklar víggirtar borgir. En ef til vill er Drottinn með mér svo að ég geti hrakið þá burt, eins og Drottinn sagði.“
13 Þá blessaði Jósúa Kaleb Jefúnnesson og fékk honum Hebron að erfðahlut. 14 Þess vegna hefur Hebron verið erfðahlutur Kenisítans Kalebs Jefúnnesonar til þessa dags. 15 Hebron hét áður Kirjat Arba eftir Arba sem var mestur meðal Anakíta. Nú létti ófriði af landinu.