1 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2Guð, með eigin eyrum höfum vér heyrt,
feður vorir hafa sagt oss
frá dáðum, sem þú drýgðir á dögum þeirra,
á löngu liðnum tímum.
3Þú stökktir burt þjóðum
en gróðursettir feðurna,
þú lékst lýði harðlega
en lést þá breiða úr sér.
4Ekki unnu þeir landið með sverðum sínum
og ekki hjálpaði armur þeirra þeim
heldur hægri hönd þín og armur
og ljómi auglitis þíns
því að þú hafðir þóknun á þeim.
5Þú ert konungur minn og Guð minn,
bjóð þú að Jakob sigri.
6Með þinni hjálp leggjum vér andstæðinga vora að velli,
með nafni þínu troðum vér fótum þá sem gegn oss rísa.
7Ég treysti ekki boga mínum
og sverð mitt veitir mér ekki sigur
8heldur veittir þú oss sigur á óvinum vorum
og lætur þá sem oss hata verða til skammar.
9Af Guði hrósum vér oss ætíð
og lofum nafn þitt að eilífu. (Sela)
10En nú hefur þú hafnað oss og niðurlægt,
þú fórst ekki út með hersveitum vorum.
11Þú lést oss hörfa undan óvinum
og hatursmenn vorir taka herfang.
12Þú fórst með oss eins og sláturfé
og tvístraðir oss meðal þjóðanna,
13þú seldir lýð þinn fyrir gjafverð
og barst ekkert úr býtum.
14Þú lést nágranna vora smána oss,
þá sem umhverfis búa hafa oss að háði og spotti.
15Þú gerðir afdrif vor að orðtaki meðal þjóðanna,
lést þjóðirnar hrista höfuðið yfir oss.
16Stöðugt stendur smán mín mér fyrir sjónum,
andlit mitt er hulið skömm
17vegna orða þeirra sem hæða mig og lasta
frammi fyrir hefnigjörnum óvini.
18Allt þetta er yfir oss komið,
þó höfðum vér ekki gleymt þér
og ekki rofið sáttmála þinn.
19Hjarta vort hefur hvorki vikið frá þér
né skref vor beygt út af vegi þínum,
20samt hefur þú brotið oss niður,
þar sem sjakalarnir hafast við,
og hulið oss niðamyrkri.
21Hefðum vér gleymt nafni Guðs vors
og hafið upp hendur til framandi guðs,
22 hefði Guð þá ekki orðið þess áskynja,
hann sem þekkir leyndarmál hjartans?
23 Það er þín vegna að vér erum stöðugt felldir,
að vér erum metnir sem sláturfé.
24 Vakna! Hví sefur þú, Drottinn?
Rís upp, útskúfa oss eigi um aldur.
25 Hví hylur þú auglit þitt,
gleymir neyð vorri og þrengingu?
26 Sál vor er beygð í duftið,
líkaminn loðir við jörðu.
27 Rís upp, veit oss lið,
frelsa oss sakir miskunnar þinnar.