Kynning

1 Rit það sem hér fer á eftir er skráð í Babýlon af Barúk Neríasyni. Nería var Mahasejason sem var sonur Sedekía Hasadjasonar Hilkíasonar. 2 Ritið var skráð á fimmta ári, sjöunda degi mánaðarins, daginn sem Kaldear unnu Jerúsalem og brenndu í eldi. 3 Barúk las ritið fyrir Jekonja Jójakímsson Júdakonung og í áheyrn alls lýðsins sem kominn var til að hlýða á. 4 Las hann það fyrir valdhafa, konungssyni, öldunga og fyrir fólkið allt, háa sem lága, alla sem bjuggu í Babýlon við ána Sud. 5 Fólkið grét síðan og fastaði og bað til Drottins 6 og hver lét af hendi rakna til samskota svo sem hann hafði efni á. 7 Féð var sent til Jerúsalem, til Jójakíms prests Hilkíasonar, sem var sonur Sallúms, og til hinna prestanna og alls fólksins sem var í Jerúsalem með Jójakím. 8 Jafnframt tók Barúk á tíunda degi sívanmánaðar áhöldin er verið höfðu í húsi Drottins, og tekin höfðu verið úr musterinu, og sendi þau aftur til Júdalands. Voru það silfurmunirnir sem Sedekía Jósíason Júdakonungur hafði látið smíða 9 eftir að Nebúkadnesar Babýloníukonungur hafði flutt Jekonja, höfðingjana og aðra fanga, jafnt valdhafa sem almenning, frá Jerúsalem og til Babýlon.

Bréf til Jerúsalem

10 Þeir rituðu:
Hér með sendum við ykkur silfur. Fyrir það skuluð þið kaupa brennifórn, syndafórn og reykelsi. Efnið síðan til matfórnar og berið hana fram á altari Drottins Guðs. 11 Biðjið fyrir Nebúkadnesari Babýloníukonungi og Baltasar syni hans að þeir megi lifa svo lengi sem himinn hvelfist yfir jörðu. 12 Þá mun Drottinn veita okkur styrk og láta augu okkar ljóma og við munum lifa öruggir í skjóli Nebúkadnesars Babýloníukonungs og undir vernd Baltasars sonar hans. Við munum þjóna þeim lengi og hljóta velvild þeirra. 13 Biðjið Drottin Guð einnig fyrir okkur því að við höfum syndgað gegn Drottni Guði okkar og til þessa dags hefur heift Drottins og reiði ekki vikið frá okkur. 14 Lesið þetta rit upp sem við sendum ykkur og játið syndir ykkar í húsi Drottins á hátíðum og öðrum helgidögum.

Syndajátning

15 Þið skuluð mæla svo:
Drottinn Guð er réttlátur en vér megum roðna af blygðun á þessum degi, vér Júdamenn og íbúar Jerúsalem, 16 einnig konungar vorir og höfðingjar, prestar vorir og spámenn og feður vorir. 17 Því að vér höfum syndgað gegn Drottni. 18 Vér óhlýðnuðumst honum. Vér hlýddum eigi á raust Drottins Guðs vors og breyttum ekki eftir fyrirmælum þeim sem hann hafði lagt fyrir oss.
19 Frá þeim degi er Drottinn leiddi feður vora út úr Egyptalandi og til þessa dags höfum vér stöðugt óhlýðnast Drottni Guði vorum og daufheyrst við raust hans. 20 Þess vegna hafa allt til þessa dags fylgt oss þær hörmungar og bölvun sem Drottinn lét þjón sinn Móse boða þegar hann leiddi feður vora út úr Egyptalandi til að gefa oss land sem flýtur í mjólk og hunangi. 21 En vér hlustuðum ekki á raust Drottins Guðs er hann talaði til oss í öllum orðum spámannanna sem hann sendi oss. 22 Sérhver vor fylgdi duttlungum síns illa hjarta og vér þjónuðum öðrum guðum og gerðum það sem illt er í augum Drottins Guðs vors.