Svar Jobs

1 Job svaraði og sagði:
2Sannarlega eruð þér vitrir
og spekin deyr út með yður.
3Ég hef líka vit eins og þér.
Og hverjum er ekki kunnugt um það?
4Ég varð að athlægi meðal vina minna,
ég sem ákallaði Guð og var bænheyrður,
réttlátur og flekklaus maður varð að athlægi.
5Hinum óhulta finnst ógæfan fyrirlitleg
en hún er vís þeim sem hrasar.
6Tjöld ofbeldismanna eru látin óáreitt
og þeir eru óhultir sem vekja reiði Guðs,
sem telja sig hafa Guð í hendi sér.
7Spyrðu skepnurnar svo að þær kenni þér,
fugla himins og þeir munu skýra þér frá
8eða dýr merkurinnar svo að þau kenni þér,
og fiskar hafsins geta einnig sagt þér frá þessu.
9Hvert þeirra skyldi ekki vita
að hönd Drottins hefur gert þetta,
10að lífskraftur alls sem lifir er í hendi hans
og lífsandi allra dauðlegra manna?
11Prófar eyrað ekki orðin
og finnur gómurinn ekki bragð að matnum?
12Er spekina að finna hjá öldungum
og hyggindin hjá langlífum?
13Hjá Guði er speki og kraftur,
hjá honum er ráðsnilld og hyggindi.
14Það sem hann rífur niður verður ekki endurreist,
fyrir þeim sem hann læsir inni verður ekki upp lokið.
15Stöðvi hann vatnsflauminn þornar hann,
sleppi hann honum lausum eyðir hann landinu.
16Hjá honum er máttur og viska,
hans eru þeir sem villast og villa um.
17Hann leiðir ráðgjafa berfætta á braut,
gerir dómara að glópum,
18leysir fjötra konunga
og bindur reipi um lendar þeirra,
19leiðir presta berfætta á braut
og steypir fornum valdaættum.
20Hann rænir mælskumenn málinu,
sviptir öldunga dómgreind,
21eys smán yfir tignarmenni
og slakar á belti hinna stæltu.
22 Hann leiðir hið hulda fram úr myrkrinu
og dregur dimmuna fram í birtuna.
23 Hann eflir þjóðir og tortímir þeim,
breiðir þær út og upprætir þær,
24 sviptir höfðingja landsins viti,
lætur þá ráfa um vegalausa auðn,
25 fálma í glórulausu myrkri,
reikula í spori eins og drukkna menn.