Sigursöngur

1 Á þeim degi verður þetta ljóð sungið í Júda:
Vér eigum rammgera borg,
múrar og virki voru reist henni til varnar.
2Ljúkið upp hliðum
svo að réttlát þjóð, sem varðveitir trúnað,
megi inn ganga,
3þjóð sem hefur stöðugt hugarfar.
Þú varðveitir heill hennar
því að hún treystir þér.
4Treystið Drottni um aldur og ævi
því að Drottinn er eilíft bjarg.
5Hann hefur lítillækkað þá sem bjuggu á hæðum,
steypt hinni háreistu borg,
steypt henni til jarðar
og varpað henni í duftið.
6Hún var troðin fótum,
fótum fátækra,
tröðkuð iljum umkomulausra.

Réttlæti Drottins

7Bein er braut hins réttláta,
þú jafnar veg hans.
8Vér væntum leiðsagnar dóma þinna, Drottinn,
þráum heils hugar nafn þitt og lofstír.
9Ég þrái þig um nætur,
andi minn leitar þín að morgni.
Þegar dómum þínum er fullnægt á jörðu
læra jarðarbúar réttlæti.
10Sé óguðlegum sýnd vægð
lærir hann aldrei réttlæti
heldur umturnar rétti á jörðinni
og sér ekki hátign Drottins.
11Drottinn, hönd þín er upphafin.
Þótt þeir vilji ekki sjá það
hljóta þeir að sjá ákafa þinn vegna þjóðarinnar og blygðast sín.
Eldur mun gleypa fjandmenn þína.
12Drottinn, þú veitir oss frið.
Allt sem oss hefur hlotnast er frá þér komið.
13Drottinn, Guð vor, aðrir drottnar en þú hafa ríkt yfir oss
en vér minnumst aðeins þín, nafns þíns.
14Dauðir lifna ekki, skuggar rísa ekki upp.
Þú hefur refsað þeim og eytt þeim,
þú afmáðir alla minningu um þá.
15Þú hefur fjölgað þjóðinni, Drottinn, þú hefur fjölgað þjóðinni.
Þú hefur gert þig dýrlegan og fært út öll landamæri.
16Drottinn, í neyðinni leituðum vér þín,
í þrengingunum, þegar þú refsaðir oss, hrópuðum vér til þín.
17Eins og þunguð kona, komin að því að fæða,
hefur hríðir og hljóðar af kvölum,
eins vorum vér frammi fyrir þér, Drottinn.
18Vér vorum þunguð, fengum hríðir
en það sem fæddist var sem vindur.
Vér færðum jörðinni enga hjálp,
engir jarðarbúar fæddust.
19Menn þínir, [ sem dánir eru, munu lifna,
lík þeirra rísa upp.
Þeir sem í moldinni búa munu vakna og fagna.
Þar sem dögg þín er dögg ljóssins
mun jörðin fæða þá sem dánir eru. [
20Gakktu, þjóð mín, inn í herbergi þín
og læstu dyrum á eftir þér,
feldu þig skamma hríð
uns reiðin er liðin hjá.

Endurlausn Ísraels

21Drottinn heldur frá bústað sínum
til að refsa íbúum jarðarinnar fyrir misgjörð þeirra.
Þá mun jörðin láta birtast blóðið sem á henni var úthellt
og ekki hylja þá lengur sem á henni voru vegnir.