Sáttmálinn endurnýjaður í Móab

1 Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði: Þið hafið sjálfir séð allt það sem Drottinn gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi gegn faraó, öllum þjónum hans og öllu ríki hans. 2 Þú sást með eigin augum hinar miklu raunir, tákn og máttarverk. 3 En allt fram á þennan dag hefur Drottinn ekki gefið ykkur hjarta til að skilja, augu til að sjá eða eyru til að heyra.
4 Ég leiddi ykkur um eyðimörkina í fjörutíu ár og hvorki slitnuðu klæðin utan af ykkur né ilskórnir af fótum ykkar. 5 Þið hvorki átuð brauð né drukkuð vín eða áfengt öl til þess að þið mættuð skilja að ég er Drottinn, Guð ykkar.
6 Þegar þið komuð hingað héldu Síhon, konungur í Hesbon, og Óg, konungur í Basan, gegn okkur með ófriði en við sigruðum þá. 7 Við tókum land þeirra og fengum það ættbálkum Rúbens, Gaðs og hálfum ættbálki Manasse að erfðahlut. 8 Haldið því ákvæði þessa sáttmála og breytið eftir þeim til þess að ykkur lánist allt sem þið gerið. 9 Í dag standið þið allir frammi fyrir Drottni, Guði ykkar, höfðingjar ættbálka ykkar, öldungar ykkar og ritarar, allir karlmenn í Ísrael, 10 börn ykkar og konur og aðkomumennirnir sem eru í búðum þínum, bæði viðarhöggsmenn þínir og vatnsberar. 11 Þú gengst hér með undir sáttmála Drottins, Guðs ykkar, og eiðinn sem Drottinn, Guð þinn, sver þér í dag. 12 Hann staðfestir í dag að þú ert hans þjóð og hann þinn Guð eins og hann hefur heitið þér og hann sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakobi. 13 En ég geri þennan sáttmála og legg eið að, ekki við ykkur eina 14 heldur bæði við þá sem standa hér hjá okkur í dag frammi fyrir Drottni, Guði okkar, og við þá sem ekki eru hér hjá okkur í dag. 15 Þið vitið að við bjuggum í Egyptalandi og hvernig við komumst um lönd þeirra þjóða sem þið fóruð um. 16 Þið sáuð hina viðurstyggilegu hjáguði þeirra og skurðgoð úr tré og grjóti, silfri og gulli sem hjá þeim voru. 17 Meðal ykkar sé enginn, karl eða kona, ættbálkur eða ætt, sem í dag snýr frá Drottni, Guði ykkar, og tekur að dýrka Guði þessara þjóða. Meðal ykkar má ekki vera rót sem eiturplanta eða malurt vex upp af, 18 enginn sem blessar sjálfan sig í hjarta sínu þegar hann heyrir ákvæði þessa eiðs og hugsar með sér: „Mér farnast vel þó að ég lifi í þrjósku hjarta míns.“ Það mun leiða til þess að flæðiengi verður afmáð ásamt þurrlendi.
19 Drottinn mun ekki vilja fyrirgefa honum heldur mun heift Drottins og vandlæting blossa upp gegn þessum manni og öll bölvun, sem skráð er á bók þessa, mun hvíla á honum og Drottinn mun afmá nafn hans undir himninum. 20 Drottinn mun greina hann frá öllum ættkvíslum Ísraels svo að illa fari fyrir honum í samræmi við allar bölvanir sáttmálans sem skráðar eru á þessa lögbók.
21 Komandi kynslóð, börn ykkar sem á eftir ykkur koma og útlendingar frá fjarlægu landi, munu segja þegar þeir sjá eyðingu landsins, plágur þær og sóttir sem Drottinn hefur látið geisa þar: 22 „Allur jarðvegur þess er orðinn að brennisteini og salti, allt er sviðið. Engu verður þar sáð, ekkert sprettur þar, ekkert grær þar, fremur en í Sódómu og Gómorru, Adma og Sebóím sem Drottinn gereyddi í heift sinni og reiði.“
23 Þá munu þeir og allar þjóðir spyrja: „Hvers vegna fór Drottinn svona með þetta land? Hvernig stendur á þessu heiftarbáli?“
24 Og þeim mun svarað: „Af því að þeir yfirgáfu sáttmála Drottins, Guðs feðra sinna, sem hann gerði við þá þegar hann leiddi þá út úr Egyptalandi. 25 Þeir tóku að dýrka aðra guði og sýna þeim lotningu, guði sem þeir höfðu ekki þekkt áður og Drottinn hafði ekki fengið þeim. 26 Þess vegna blossaði heift Drottins upp gegn þessu landi svo að hann lét yfir það koma alla þá bölvun sem skráð er á þessa bók. 27 Drottinn reif þá upp úr sínum eigin jarðvegi í heift og miklum ofsa og þeytti þeim í annað land og er svo enn í dag.“
28 Það sem leynt er heyrir Drottni til, Guði okkar, en það sem hefur verið opinberað heyrir okkur til og niðjum okkar ævinlega svo að við getum framfylgt öllum ákvæðum þessa lögmáls.