Annáll Júda

Klofningur ríkis Salómons: Þingið í Síkem

1 Rehabeam fór til Síkem því að þangað var allur Ísrael kominn til þess að taka hann til konungs. 2 Jeróbóam Nebatsson frétti þetta á meðan hann var enn í Egyptalandi en þangað hafði hann flúið undan Salómon konungi. Jeróbóam sneri nú aftur frá Egyptalandi. 3 Sent var eftir honum og hann kallaður heim. Þegar Jeróbóam og allur Ísrael var kominn til Síkem sögðu þeir við Rehabeam: 4 „Faðir þinn lagði á okkur þungt ok. Ef þú léttir hinn harða þrældóm föður þíns og hið þunga ok, sem hann lagði á okkur, skulum við þjóna þér.“ 5 En hann svaraði þeim: „Farið og komið aftur til mín að þremur dögum liðnum.“
Fólkið fór leiðar sinnar 6 en Rehabeam konungur ráðgaðist við gömlu mennina sem höfðu verið í þjónustu Salómons, föður hans, meðan hann lifði. „Hvað ráðleggið þið mér?“ spurði hann. „Hverju á ég að svara þessu fólki?“ 7 Þeir svöruðu honum og sögðu: „Ef þú verður vingjarnlegur og lætur að vilja þess og talar vinsamlega við það, þá mun þetta fólk þjóna þér héðan í frá.“
8 Rehabeam fór ekki að ráðum gömlu mannanna en leitaði í staðinn ráða hjá ungu mönnunum sem höfðu alist upp með honum og voru nú í þjónustu hans. 9 Hann spurði þá: „Hvað ráðleggið þið mér? Hverju á ég að svara þessu fólki sem segir við mig: Léttu okið sem faðir þinn lagði á okkur?“ 10 Ungu mennirnir, sem höfðu alist upp með honum, svöruðu: „Þannig skaltu svara þessu fólki sem hefur sagt við þig: Léttu hið þunga ok sem faðir þinn lagði á okkur, þannig skaltu svara því: Litli fingur minn er gildari en lendar föður míns. 11 Faðir minn lagði á ykkur þungt ok en ég mun þyngja það enn. Faðir minn agaði ykkur með hnútasvipu en ég mun aga ykkur með gaddasvipu.“[
12 Jeróbóam og allt fólkið kom til Rehabeams á þriðja degi eins og konungurinn hafði skipað þegar hann sagði: „Komið aftur til mín að þremur dögum liðnum.“ 13 Konungur svaraði fólkinu hranalega, hafði ráð gömlu mannanna að engu 14 en svaraði því að ráði ungu mannanna og sagði: „Faðir minn lagði á ykkur þungt ok en ég mun þyngja það enn. Faðir minn agaði ykkur með hnútasvipu en ég mun aga ykkur með gaddasvipu.“
15 Konungur hlustaði ekki á fólkið af því að Drottinn hafði snúið atburðunum á þennan veg til þess að það rættist sem hann hafði sagt við Jeróbóam Nebatsson af munni Ahía frá Síló. 16 Þegar Ísraelsmönnum varð ljóst að konungurinn vildi ekki hlusta á þá svöruðu þeir honum og sögðu:
Hvaða hlutdeild eigum við í Davíð?
Við eigum engan erfðahlut í syni Ísaí.
Ísrael, farðu til tjalda þinna,
Davíð, gættu að þinni eigin ætt.

Því næst hélt allur Ísrael til tjalda sinna 17 en Rehabeam varð konungur yfir þeim Ísraelsmönnum sem bjuggu í borgum Júda. 18 Þegar Rehabeam konungur sendi Hadóram, yfirmann kvaðavinnunnar, til Ísraels grýtti allur Ísrael hann til bana. En Rehabeam konungi tókst að komast upp í vagn sinn og flýja til Jerúsalem. 19 Þannig gerðu Ísraelsmenn uppreisn gegn ætt Davíðs og hafa verið skildir frá henni allt til þessa dags.